Fara í efni

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs

285. fundur 21. nóvember 2018 kl. 17:00 - 19:00 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Stefán Bogi Sveinsson forseti
  • Anna Alexandersdóttir 1. varaforseti
  • Steinar Ingi Þorsteinsson 2. varaforseti
  • Hannes Karl Hilmarsson bæjarfulltrúi
  • Björn Ingimarsson bæjarstjóri
  • Stefán Snædal Bragason skrifstofu- og starfsmannastjóri
  • Gunnar Jónsson bæjarfulltrúi
  • Berglind Harpa Svavarsdóttir bæjarfulltrúi
  • Anna Gunnhildur Ingvarsdóttir bæjarfulltrúi
  • Kristjana Sigurðardóttir bæjarfulltrúi
  • Björg Björnsdóttir bæjarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Stefán Bragason skrifstofustjóri

1.Fjárhagsáætlun 2019 - 2022

201804070

Björn Ingimarsson bæjarstjóri lagði fram áætlunina til síðari umræðu í bæjarstjórn. Áður hefur hún verið afgreidd af bæjarráði og við fyrri umræðu í bæjarstjórn, auk þess sem hún var kynnt á opnum borgarafundi 15. nóvember sl.
Aðrir sem til máls tóku um fjárhagsáætlunina voru, í þessari röð: Anna Alexandersdóttir og Gunnhildur Ingvarsdóttir.

Helstu niðurstöðutölur eru sem hér segir:

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2019 nema 4.680 millj. kr. samkvæmt samstæðu fyrir A og B hluta, en þar af nema rekstrartekjur A hluta 4.257 millj. kr.

Rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði og afskriftir verða alls 3.810 millj. kr. í samstæðu fyrir A og B hluta, þar af eru rekstrargjöld A hluta áætluð 3.703 millj. kr. Afskriftir ársins í A og B hluta nema 297 millj., þar af 178 millj. í A hluta. Fjármagnsliðir verða neikvæðir um 400 millj. í samanteknum A og B hluta, þar af 290 millj. í A hluta.

Eftir fjármagnsliði og afskriftir er rekstrarafkoma ársins jákvæð um 160 millj. kr. í samanteknum A og B hluta. Þar af er afkoma A-hluta jákvæð um 85 millj. kr.

Veltufé frá rekstri er jákvætt um 668 millj. kr. hjá samstæðu A og B hluta, þar af er veltufé frá rekstri í A hluta jákvætt um 442 millj. kr.
Fjárfestingahreyfingar ársins 2019 nema nettó 351 millj. kr. hjá samstæðu A og B hluta, þar af 219 millj. í A hluta.
Afborganir af lánum og leiguskuldbindingum hjá samstæðu A og B hluta verða 535 millj. kr. á árinu 2019, þar af 367 millj. í A hluta.

Heildarskuldir og skuldbindingar eru áætlaðar 8.035 millj. kr. í árslok 2019 fyrir A og B hluta. Þar af nema heildarskuldir og skuldbindingar A hluta 4.964 millj. kr.

Skuldaviðmið samstæðu A og B hluta verður 143% í árslok 2019.

Fjárhagsáætlun 2019-2022 í heild sinni er að öðru leyti aðgengileg á heimasíðu Fljótsdalshéraðs.


Jafnframt eru eftirfarandi álagningarhlutföll og viðmiðunartölur fyrir árið 2019 lögð til grundvallar og samþykkt sem hluti af henni.

Álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 14,52%

Fasteignaskattur verði óbreyttur, eða sem hér segir:
A flokkur 0,5%
B flokkur 1,32%
C flokkur 1,65%

Lóðarleiga verði óbreytt á eignarlóðum Fljótsdalshéraðs, eða 0,75%

Sorpgjald á íbúð verði:
Söfnunargjald kr. 20.906
Förgunargjald kr. 8.955
Samtals kr. 29.861

Aukatunnur á heimili
Grá tunna 240 L kr. 10.600 á ári
Græn tunna 240 L kr. 1.900 á ári
Brún tunna 240 L kr. 1.900 á ári

Gjaldskrá fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs á Fljótsdalshéraði árið 2019 er jafnframt staðfest í heild sinni.

Heimild til lækkunar fasteignaskatts hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum 2019:
Hámark afsláttar verði: 80.000. Viðmiðunartölur tekna hjá einstaklingi verði:
Lágmark 2.980.000
Hámark 3.910.000
Viðmiðunartölur tekna hjá hjónum verði:
Lágmark 4.190.000
Hámark 5.309.000.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir framlagða fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2019 við seinni umræðu, ásamt þriggja ára áætlun 2020 - 2022 og framangreindum álagningarhlutföllum og viðmiðunartölum. Fyrri umræða um fjárhagsáætlunina fór fram 7. nóvember sl. og var hún birt í Kauphöllinni þann sama dag.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 446

1811002F

Til máls tóku: Anna Alexandersdóttir, sem kynnti fundargerðina og lagði fram drög að bókunum. Stefán Bogi Sveinsson, sem ræddi liði 2.7 og 2.10 og Björg Björnsdóttir, sem ræddi lið 2.10. og 2.7.

Fundargerðin lögð fram.

3.Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 447

1811006F

Til máls tóku: Anna Alexandersdóttir, sem kynnti fundargerðina og lagði fram drög að bókunum.

Fundargerðin lögð fram.

4.Atvinnu- og menningarnefnd - 77

1811003F

Fundargerðin lögð fram.

5.Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 101

1811005F

Til máls tóku: Stefán Bogi Sveinsson, sem kynnti fundargerðina og lagði fram drög að bókunum. Steinar Ingi Þorsteinsson, sem ræddi lið 5.18. Hannes K. Hilmarsson, sem ræddi lið 5.18 og lagði fram bókun. Stefán Bogi Sveinsson, sem ræddi lið 5.18. Björg Björnsdóttir, sem ræddi lið 5.18. Steinar Ingi Þorsteinsson, sem ræddi lið 5.18 og lagði fram bókun. Stefán Bogi Sveinsson, sem ræddi lið 5.18. Björg Björnsdóttir, sem ræddi lið 5.18. Stefán Bogi Sveinsson, sem ræddi lið 5.18 og lagði fram bókun í nafni B- og D-lista. Gunnar Jónsson, sem ræddi lið 5.18. Björg Björnsdóttir, sem tók til máls til að bera af sér ámæli. og Gunnar Jónsson, sem ræddi lið 5.18.

Fundargerðin lögð fram.
  • Bókun fundar Lagt fram til kynningar.
  • Bókun fundar Lagt fram til kynningar.
  • Bókun fundar Á fundi umhverfis- og framkvæmdanefndar var lögð fram tilkynning um áform Vegagerðarinnar um niðurfellingu Unaóssvegar af vegaskrá.

    Eftirfarandi tillaga lögð fram:
    Bæjarstjórn tekur undir með umhverfis- og framkvæmdanefnd og mótmælir niðurfellingu vegarins af vegskrá með vísan til þess að um er að ræða bújörð sem er tilbúin til rekstrar.

    Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
  • Bókun fundar Afgreiðsla umhverfis- og framkvæmdanefndar staðfest.
  • Bókun fundar Afgreiðsla umhverfis- og framkvæmdanefndar staðfest.
  • 5.6 201703178 Viðhald kirkjugarða
    Bókun fundar Afgreiðsla umhverfis- og framkvæmdanefndar staðfest.
  • Bókun fundar Fyrir fundinum liggur erindi frá Umhverfisstofnun þar sem kynnt eru áform um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum gagnvart orkuvinnslu. Um er að ræða virkjanakosti sem eru í verndarflokki rammaáætlunar, svæði 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun.

    Eftirfarandi tillaga lögð fram:
    Bæjarstjórn tekur undir með umhverfis- og framkvæmdanefnd og gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi tillögu að friðlýsingu.

    Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
  • Bókun fundar Fyrir fundi umhverfis- og framkvæmdanefndar lá fyrirspurn um framkvæmd á umferðaöryggisáætlun. Fram kemur í erindinu að snyrta þurfi trjágróður á gatnamótum Gilsárteigs og Borgarfjarðarvegar og öryggi á brú á milli Gilsárteigs og Brennistaða sé ábótavant.

    Eftirfarandi tillaga lögð fram:
    Bæjarstjórn tekur undir með umhverfis- og framkvæmdarnefnd, þakkar erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að benda Vegagerðinni á að klippa þurfi trjágróður við þessi gatnamót. Jafnframt er skipulags- og byggingarfulltrúa falið að kanna hvort umrædd brú sé á forsvari Vegagerðarinnar. Ef svo er ekki samþykkir bæjarstjórn að sótt verði um styrk fyrir viðhaldi hennar í styrkvegasjóð.

    Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
  • 5.9 201702095 Rafbílavæðing
    Bókun fundar Lagt fram til kynningar.
  • Bókun fundar Í umhverfis- og framkvæmdanefnd var lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs á Fljótsdalshéraði 2019.

    Eftirfarandi tillaga lögð fram:
    Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar samþykkir bæjarstjórn tillögu að gjaldskrá fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs á Fljótsdalshéraði 2019. Gjaldskráin verði auglýst í B- deild Stjórnartíðinda.

    Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
  • Bókun fundar Afgreitt af umhverfis- og framkvæmdanefnd.
  • Bókun fundar Eftirfarandi tillaga lögð fram:
    Bæjarstjórn þakkar fram komna hugmynd en bendir líkt og umhverfis- og framkvæmdanefnd á að unnið hefur verið að því að koma upp hreystitækjum í Selskógi.

    Bæjarstjórn telur þó að skoða beri þessa hugmynd í samhengi við aðrar hugmyndir um framtíð Tjarnargarðsins sem áður hafa borist frá Þjónustusamfélaginu og ungmennum í sveitarfélaginu.

    Umhverfis- og framkvæmdanefnd er falið að taka málefni Tjarnargarðsins sérstaklega á dagskrá með það í huga að taka afstöðu til fram kominna hugmynda og með hliðsjón af þeirri verkáætlun sem nú er unnið eftir varðandi framkvæmdir í Tjarnargarðinum.

    Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
  • Bókun fundar Afgreiðsla umhverfis- og framkvæmdanefndar staðfest.
  • Bókun fundar Umsókn um leyfi fyrir hænsnahaldi að Heimatúni 4.

    Eftirfarandi tillaga lögð fram:
    Bæjarstjórn samþykkir að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að afgreiða umsóknina að fengnum öllum nauðsynlegum upplýsingum.

    Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
  • Bókun fundar Lögð er fram lýsing á breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 og deiliskipulagi Kröfluvirkjunar.

    Eftirfarandi tillaga lögð fram:
    Bæjarstjórn tekur undir með umhverfis- og framkvæmdanefnd og gerir ekki athugasemd við erindið.

    Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
  • Bókun fundar Afgreiðsla umhverfis- og framkvæmdanefndar staðfest.
  • Bókun fundar Í vinnslu.
  • Bókun fundar Fyrir fundinum lá erindi frá Skipulagsstofnun með ósk um umsögn Fljótsdalshéraðs um hvort ný skólphreinsistöð fyrir Egilsstaði og Fellabæ skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

    Umhverfis- og framkvæmdanefnd samþykkti á fundi sínum 14. nóvember sl. að fela formanni og starfsmanni nefndarinnar, í samstarfi við forseta bæjarstjórnar, að móta tillögu að umsögn sem tekin yrði til afgreiðslu á næsta fundi bæjarstjórnar.

    Drög að umsögn liggja nú fyrir til afgreiðslu.

    Eftirfarandi tillaga lögð fram:
    Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi drög að umsögn og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að undirrita hana og senda til Skipulagsstofnunar.

    Tillagan borin upp og samþykkt með 5 atkvæðum meirihluta, en 4 fulltrúar minnihluta greiddu atkvæði gegn henni.


    Steinar Ingi Þorsteinsson lagði fram eftirfarandi bókun L listans.
    L-listinn undrast það að meirihluti umhverfis- og framkvæmdanefndar skuli hafa komið í veg fyrir að nefndin kæmi að vinnu við þá umsögn sem hér liggur fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu. Með því að samþykkja að fela formanni og starfsmanni nefndarinnar, í samstarfi við forseta bæjarstjórnar að vinna tillögu að umsögn var nefndin í raun útilokuð frá því að sinna verkefni sem henni er falið skv. 2 gr. samþykktar fyrir umhverfis-og framkvæmdanefnd sveitarfélagsins. Fulltrúar L-lista geta ekki fallist á það sem fram kemur í öðrum lið umsagnarinnar að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun í þeirri skýrslu sem send var til Skipulagsstofnunar. Litlar sem engar upplýsingar er þar að finna um aðra valkosti, mótvægisaðgerðir og vöktun og á þetta var bent í bókun minnihlutans á 93. fundi umhverfis- og framkvæmdanefndar. Skýrslan sem Skipulagsstofnun biður hér um álit á var upphaflega unnin fyrir bæjarstjórn, í henni eru meinlegar villur og með ólíkindum verður að teljast að hún skuli ekki hafa verið fullunnin áður en hún var send til Skipulagsstofnunar.


    Hannes K. Hilmarsson lagði fram eftirfarandi bókun M-listans.
    M- Listinn tekur undir bókun L-listans varðandi þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í þessu máli, og fordæmir að ekki sé látið reyna á að fullklára núverandi leið og bendir á mikla eignamyndun í núverandi hreinsivirkjum og þekkingu, sem orðin er til á svæðinu í rekstri slíkra mannvirkja, og harmar að kasta eigi fyrir róða án frekari skoðunar eða kostnaðarmats. M-Listinn harmar það afturhvarf til fortíðar sem fellst í þeirri stefnubreytingu sem boðuð er og telur hana verða til tjóns fyrir sveitarfélagið, bæði kostnaðarlega og ímyndarlega þegar fram í sækir.

    Stefán Bogi Sveinsson lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd B- og D-lista:
    Fulltrúar B- og D-lista í bæjarstjórn leggja áherslu á að á þessu stigi málsins er aðeins verið að taka afstöðu til þess hvort fyrirhuguð fráveituframkvæmd, bygging hreinsistöðvar fyrir fráveitu og tengdar lagnaframkvæmdir, eigi að sæta umhverfismati. Skipulagsstofnun hefur leitað álits sveitarfélagsins á því og það er bæjarstjórnar að veita það álit en Skipulagsstofnunar að taka ákvörðun.
    Bæjarstjórn er æðsta stjórn sveitarfélagsins og það getur aldrei verið rangt að vísa málum sem tekin eru fyrir í nefndum sveitarfélagsins til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn, enda starfa allar fastanefndir í umboði bæjarstjórnar.
    Málið sem hér um ræðir var tekið á dagskrá umhverfis- og framkvæmdanefndar, það var rætt innan nefndarinnar og nefndin tók ákvörðun um afgreiðslu þess. Allt er þetta ferli þar sem kjörnir fulltrúar í viðkomandi fagnefnd og í bæjarstjórn hafa haft tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og leggja fram tillögur um afgreiðslu málsins.

  • Bókun fundar Lagt fram til kynningar.
  • Bókun fundar Í vinnslu.

6.Jólaleyfi bæjarstjórnar og bæjarráðs 2018

201811058

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu bæjarráðs samþykkir bæjarstjórn að jólafrí bæjarstjórnar hefjist eftir fund hennar 5. desember. Fyrsti fundur bæjarstjórnar á nýju ári verði 16. janúar.
Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að bæjarráð fari með
fullnaðarafgreiðsluumboð mála frá 6. desember og til og með 7. janúar, sbr. 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, meðan bæjarstjórn er í jólaleyfi.
Fastir fundir bæjarráðs á þeim tíma verða 10. desember, 17. desember og 7. janúar. Þar fyrir utan verður boðað til bæjarráðsfunda ef þörf krefur.

Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að fundir hennar fram að sumarleyfi 2019 verði sem hér segir:
16. janúar
6. og 20. febrúar
6. og 20. mars
3. og 17. apríl
2. og 15. maí
5. og 19. júní

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Umsókn um tækifærisleyfi til áfengisveitinga/þorrablót Egilsstaða

201811008

Fyrir liggur umsagnarbeiðni frá Sýslumanninum á Austurlandi vegna umsóknar um tækifærisleyfi vegna þorrablóts Egilsstaða sem haldið verður í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum Tjarnarbraut 26, þann 25.1.2019.

Fyrir liggur jákvæð umsögn frá Heilbrigðiseftirliti og að byggingarfulltrúi gerir ekki athugasemd við leyfisveitinguna.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til 5. mgr. 17. gr. og 1. tl. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007, veitir bæjarstjórn jákvæða umsögn og staðfestir jafnframt að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsóknin lýtur að, sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segir til um.
Bæjarstjórn tekur fram að eldvarnareftirlit og vinnueftirlit skila sínum umsögnum beint til Sýslumanns.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 19:00.

Getum við bætt efni þessarar síðu?