1. grein – Markmið
Reglur þessar taka annars vegar mið af skyldum sveitarfélagsins í málaflokknum miðað við fyrirmæli í lögum nr. 85/2007 með síðari breytingum og reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Hins vegar taka reglurnar mið af þeim valdheimildum sem sveitarfélagið hefur til stefnumótunar innan sveitarfélagsins sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og öðrum lögum og reglugerðum sem sveitarfélagið varðar.
2. grein – Gistirekstur
Hver sá sem vill hefja gistirekstur í Múlaþingi þarf að gera það í samræmi við gildandi lög og reglur. Í samræmi við 3. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 eru fjórir mismunandi flokkar gististaða.
2.1. Gisting í flokki I - Heimagisting
Ekki þarf að sækja um rekstrarleyfi til heimagistingar en hana þarf að skrá hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Í 13. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 er nánar fjallað um skilyrði sem þarf að uppfylla svo að gistiþjónusta teljist vera heimagisting.
2.2. Gisting í flokkum II-IV - Aðrir gististaðir
Sækja þarf um rekstrarleyfi og leggja fram viðeigandi gögn sbr. 25. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Jákvæð umsögn sveitarfélagsins er háð því að:
- Fyrirhugaður rekstur sé í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins og deiliskipulag viðkomandi lóðar.
- Fasteignin uppfylli skilmála byggingarreglugerðar.
- Fasteignin sé skilmerkilega merkt starfseminni utan húss, í samræmi við byggingarreglugerð.
- Fyrir liggi jákvæð umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands.
- Fyrir liggi jákvæð umsögn frá Brunavörnum Austurlands.
Gisting í þéttbýli:
Sveitarfélagið veitir jákvæða umsögn fyrir gistingu innan þéttbýlismarka, skv. afmörkun þeirra í gildandi aðalskipulagi, fyrir gistirekstur í flokkum II-IV, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Gististarfsemi skal vera í samþykktu atvinnuhúsnæði.
- Á aðaluppdráttum sé tilgreint að húsnæði tilheyri notkunarflokki 4 samkvæmt byggingarreglugerð.
- Gerð sé grein fyrir þeim fjölda bílastæða sem fylgja rekstrinum á aðaluppdráttum og fjöldi þeirra sé í samræmi við skilgreiningu í 4. gr. þessara reglna.
Gisting á frístundabyggðasvæðum:
Sveitarfélagið getur veitt jákvæða umsögn fyrir gistingu á skipulögðum frístundabyggðasvæðum, skv. afmörkun þeirra í gildandi aðalskipulagi, í flokki II-IV að uppfylltri 3. gr. þessara reglna varðandi bílastæði. Jákvæð umsögn er jafnframt háð því að umferð gesta sé ekki líkleg til að valda nágrönnum umtalsverðri truflun.
Gisting á landbúnaðarsvæðum og öðrum svæðum:
Sveitarfélagið getur veitt jákvæða umsögn fyrir gistingu á landbúnaðarsvæðum og á öðrum svæðum, skv. afmörkun þeirra í gildandi aðalskipulagi, í flokki II-IV að uppfylltri 3. gr. þessara reglna varðandi bílastæði. Jákvæð umsögn er jafnframt háð því að umferð gesta sé ekki líkleg til að valda nágrönnum umtalsverðri truflun.
3. grein – Bílastæði
Við mat á því hvort næg bílastæði séu til staðar vegna fyrirhugaðrar starfsemi skal miða við að eitt bílastæði fylgi hverjum tveimur gistirýmum. Ef bílastæði fylgja ekki viðkomandi eign skal umsækjandi sýna fram á staðfesta heimild frá þinglýstum eigendum aðliggjandi eigna eða frá sveitarfélaginu um nýtingu bílastæða fyrir reksturinn. Að öðrum kosti getur sveitarfélagið í umsögn sinni mælt með því að heimild sé fyrir færri gestum eða gistirýmum en umsókn segir til um.
4. grein - Gjaldheimta
Múlaþing leggur á allar eignir sem nýttar eru til gististarfsemi fasteignagjöld í C-lið 3. mgr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga í réttu hlutfalli við það hlutfall hússins sem nýtt er til sölu gistingar.
5. grein – Afgreiðsla sveitarfélagsins
Fulltrúar sveitarstjóra veita umsagnir til sýslumanns samkvæmt framangreindum reglum. Afgreiðsla erinda fer eftir innri verklagsreglum Múlaþings vegna umsagnabeiðna frá sýslumannsembættinu vegna umsókna samkvæmt lögum nr. 85/2007, með síðari breytingum, og reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
6. grein – Gildistaka
Reglur þessar taka gildi við staðfestingu byggðaráðs Múlaþings. Samhliða falla úr gildi Reglur Múlaþings um gististaði innan sveitarfélagsins frá 23.05.2023.
Samþykkt í byggðaráði Múlaþings 21. maí 2024