Sögufélag hefur gefið út bókina Lýðræði í mótun eftir Hrafnkel Lárusson, fyrrum héraðsskjalavörð við Héraðsskjalasafn Austfirðinga en í henni skipar austfirsk saga stóran sess.
Bókin byggir á doktorsrannsókn Hrafnkels, þar sem hann skoðaði þróun félagsstarfs, fjölmiðlunar og lýðræðisþátttöku almennings í lok 19. og byrjun 20. aldar. Margt heimilda sem Hrafnkell nýtti við rannsóknina er að finna í Héraðsskjalasafni Austfirðinga og flestar myndir í bókinni eru úr Ljósmyndasafni Austurlands.
Hrafnkell mun heimsækja fornar slóðir í Safnahúsinu á Egilsstöðum þann 12. september, segja frá bókinni og spjalla við gesti um efni hennar, meðal annars hvaða hlutverk Austfirðingar léku í uppbyggingu félagsstarfs og í lýðræðisþróun hér á landi.
Viðburðurinn er öllum opinn og hefst kl. 17:30.
Við sama tækifæri verður sagt frá annarri nýrri bók frá Sögufélagi. Það er bókin Nú blakta rauðir fánar: saga kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar á Íslandi 1918–1968 eftir Skafta Ingimarsson sagnfræðing.
Að lokinni kynningu gefst gestum kostur á að kaupa eintök af báðum bókum á forsöluverði.