Fara í efni

Langt út / Far out XIV - Bjarni Már Ingólfsson & Tumi Torfason

Sláturhúsið, Kaupvangi 9 10. október 2024 kl. 20:00-21:30

Far out / langt út jazztónleikaröðin hefur nú sitt þriðja starfsár og að þessu sinni eru það Bjarni Már Ingólfsson gítarleikari og Tumi Torfason trompetleikari sem heimsækja okkur með efnisskrá af frumsaminni tónlist sem þeir flétta saman við frjálsan spuna á sinn einstaka hátt. Dúóið flæðir milli strúktúrs og óvissu í einbeittu samtali, heitri rökræðu og hjartanlegu samkomulagi. Þeir fara mjúkum höndum um tónsmíðar sínar, snúa þeim á alla kanta og leika af fingrum fram í formfestu og frjálsu falli.

Þessir ungu spilarar og tónskáld hafa á skömmum tíma fengið verðskuldaða athygli í íslensku jazzsenunni fyrir að leiða og taka þátt í ýmsum verkefnum sem oftar en ekki snerust um frumsamið efni og frjálsan spuna. Þeir gengu báðir í Tónlistarskóla FÍH en stofnuðu dúóið í bakkálárnámi við jazzdeild Konunglega tónlistarháskólans í Stokkhólmi fyrir rúmum þremur árum. Þeir fundu og mótuðu rödd dúósins í skapandi sumarstörfum í Hinu húsinu og spiluðu tónleikaseríu í miðbæ Reykjavíkur sem endaði í Mengi við Óðinsgötu. Síðan hafa þeir meðal annars spilað á Jazzhátíð Reykjavíkur og á Jazzklúbbnum Múlanum. Um þessar mundir eru þeir báðir í meistaranámi, Tumi í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands og Bjarni í jazzdeild Norsku tónlistarakademíunnar í Osló, auk þess sem þeir hafa báðir hljóðritað sínar fyrstu sólóplötur sem eru væntanlegar á næstu misserum.

Leikar hefjast kl. 20 fimmtudagskvöldið 10. október í Sláturhúsinu og miðaverð er kr 2000. Þess má einnig geta að tónleikar þessir eru partur af örtónleikaferðalagi dúósins milli Reykjavíkur og Egilsstaða en áður en þeir koma austur spila þeir fyrir sunnan miðvikudaginn 9. október á Le Kock við Tryggvagötu.

Getum við bætt efni þessarar síðu?