Fara í efni

Vonarljósavaka í Vegahúsinu

04.10.2023 Fréttir Egilsstaðir

Gulum september, vitundarverkefni um geðrækt og sjálfsvígsforvarnir er nýlokið en í tilefni þess var haldin ljósahátíð á vegum Vegahússins. Mynduð var semíkomma úr logandi friðarkertum sem er tákn um von og framhald. Hún er ekki punktur heldur kemur eitthvað á eftir henni. Þannig minnir hún okkur á að staldra við og taka svo næstu skref.

Vegahúsið er rekið af sveitarfélaginu Múlaþingi og hýst í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Um er að ræða félagsmiðstöð sem er ætluð ungmennum á aldrinum 16-25 ára. 
Uppistaðan í starfinu er klúbbastarf sem hefst strax eftir að skóladegi lýkur. 

Gulur september er vitundarátak í geðrækt og sjálfsvígsforvörnum sem ýmsar stofnanir og félagasamtök standa að. Krakkarnir buðu upp á frábær tónlistaratriði en einnig var boðið upp á minni smiðjur. Búnar voru til geðræktarkrukkur þar sem ungmennin tóku góð ráð og sultuðu ofan í krukku. Á bjargráðaveggnum var bent á samtök og aðstoð sem er í boði, síðan var þakklætisþráður um þakklæti og mikilvægi þess að horfa á hið góða og fallega í kringum okkur auk hugmyndasmiðju um starfið í vetur.


Vonarljósavaka í Vegahúsinu
Getum við bætt efni þessarar síðu?