Fyrstu nemendurnir í Vinnuskóla Múlaþings hófu störf 9. júní síðastliðinn. Starfstöðvar vinnuskólans í sumar verða þrjár, á Djúpavogi, Egilsstöðum/Fellabæ og Seyðisfirði en í sumar verða engir nemendur í Vinnuskóla Múlaþings á Borgarfirði.
Nemendur vinnuskólans eru 13 – 16 ára og sinna ýmsum verkefnum við umhirðu og fegrun sveitarfélagsins. Það sem af er sumri hafa nemendur til að mynda borið á grindverk við sparkvelli, málað mini-golfvöllinn (ekki bæinn) rauðan, borið á sætisbekki, og tekið leikvelli í gegn.
Í sumar starfa alls níu flokkstjórar og tveir verkstjórar hjá vinnuskólanum sem koma til með að stýra nemendum í sínum störfum.
Nemendur og starfsfólk vinnuskólans óskar eftir góðu samstarfi við íbúa og gesti sveitarfélagsins og má koma ábendingum um það sem íbúum finnst betur mega fara á netföngin vinnuskoli.djupivogur@mulathing.is, vinnuskoli.egilsstadir@mulathing.is og vinnuskoli.seydisfjordur@mulathing.is.