Vegahúsið fékk á dögunum 200 þúsund kr. styrk frá Kvenfélagi Eiðaþinghár en Vegahúsið er ungmennahús fyrir fólk á aldrinum 16-25 ára í Múlaþingi.
Árni Pálsson, forstöðumaður Nýungar og Vegahússins, tók á móti styrknum frá kvenfélaginu af þeim Ágústínu Konráðsdóttur, Svanfríði Drífu Óladóttur og Katrínu Högnadóttur en ákvörðun um ráðstöfun styrksins fer fram á sameiginlegum fundi félagsins.
Helga Guðmundsdóttir átti frumkvæði að stofnun Vegahússins fyrir um 20 árum þegar hún starfaði sem fræðslustjóri hjá fyrrum Fljótsdalshéraði og hefur lagt mikla áherslu á félags- og ungmennastörf samfélagsins.
"Þegar Vegahúsið var stofnað árið 2004 var einungis eitt fordæmi fyrir slíku á Íslandi, en það var á Ísafirði, síðan þá hafa ungmennahúsum fjölgað mikið á landsvísu" segir Helga Guðmundsdóttir.
"Á þessum tíma var 16-25 ára aldurshópurinn svolítið félagslega týndur og mikilvægt er að grípa þennan aldur úr grunnskóla. Það er alltaf ákveðinn hópur ungmenna sem finnur sig jafnvel ekki í félagsstarfi menntaskólanna, hefur vaxið upp úr félagsmiðstöðvum grunnskólanna og ekki orðin nóg og gömul í annarsskonar afþreyingu. Því lá auðvitað best við að búa til vettvang fyrir ungt fólk sem býður upp á fjölbreytta og skemmtilega félagslega aðstöðu" heldur Helga áfram og rifjar upp aðkomu Rauða Krossins og þeirra göfuga starf í garð ungmenna en Rauði Krossinn hefur ýtt sambærilegum verkefnum af stað víðs vegar um Ísland.
"Það er ekki endilega umgjörðin eða staðsetningin, heldur það að finna sig velkomin einhverstaðar og að ganga að þeim möguleika að hittast og búa til eitthvað uppbyggilegt og jákvætt, eins og tónlist. Þarna voru og eru ungmenni t.d. að stofna hljómsveitir og vinna að sameiginlegum afrakstri og það er það sem er svo dýrmætt."
Helga talar einnig um mikilvægi styrkja fyrir starfið. Unga fólkið er framtíðin og Vegahúsið reiðir sig á stuðning sem þennann til að geta haldið starfi sínu í þágu ungmenna uppi.
Vegahúsið er staðsett í Sláturhúsinu, menningarmiðstöð, Kaupvangi 7 á Egilsstöðum. Í Vegahúsinu er virkur hinseginklúbbur, listaklúbbur og fjölmenningarklúbbur en ungmennahúsið stendur einnig fyrir fjölda einstakra viðburða. Almennur opnunartími er á fimmtudögum frá kl. 19:30-22 en möguleiki er á hópastarfi og aðstöðu utan opnunartíma eftir samkomulagi.