Fara í efni

Upptakturinn - tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna

06.01.2023 Fréttir

Krakkar í 5.-10. bekk hafa nú einstakt tækifæri til að senda inn drög (demó) að tónverki/lagi sem þau semja sjálf og komast þannig inn í skemmtilegar tónsmíðavinnustofur sem haldnar verða eina helgi í byrjun ársins.
Allir höfundar tónverka fá aðgang að tónsmiðjum Upptaktsins á Austurlandi sem haldnar eru í Sköpunarmiðstöðinni þar sem unnið er markvisst úr hugmyndum með aðstoð frá tónlistarlistarfólki. Í framhaldi eru hljóðrituð demó í Studio Síló sem send eru í Upptaktinn sem fer fram í Hörpu. Dómnefnd velur svo einn ungan austfirskan tónsmið og tónsmíð hans til áframhaldandi þátttöku í smiðjum á vegum Upptaktsins í Reykjavík. Tónsmiðurinn ungi fær þannig líka að taka þátt í Upptaktinum í Hörpu, vinnustofum og tónleikum á Barnamenningarhátíð á vormánuðum. Tónlistarmiðstöðin greiðir ferðakostnað fyrir tónhöfund og forráðamann til Reykjavíkur.

Markmið með Upptaktinum á Austurlandi er meðal annars að styðja við tónsköpun ungs fólks og hvetja börn og unglinga á Austurlandi til að tjá sig með tónlistarsköpun og semja eigin tónlist. Að aðstoða börn og unglinga á Austurlandi við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðju og varðveita þannig tónlistina og gefa börnum og unglingum á Austurlandi tækifæri á að fá leiðsögn frá austfirsku fagfólki og taka þátt í vinnustofu og tónleikum með fagfólki við kjöraðstæður á tónleikum í Hörpu.

Tónverk skulu send á tonleikahus@tonleikahus.is en opið er fyrir umsóknir til 15. janúar 2023. Upplýsingar um nafn, aldur og skóla höfundar þurfa að fylgja innsendingunni sem og símanúmer og tölvupóstfang.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er Tónlistarmiðstöð Austurlands/Menningarstofa Fjarðabyggðar sem heldur utan um Upptaktinn á Austurlandi. Upptakturinn nýtur stuðnings frá Uppbyggingarsjóði Austurlands.

 

Frekari upplýsingar veitir starfsfólk Menningarstofu Fjarðabyggðar.

Upptakturinn - tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna
Getum við bætt efni þessarar síðu?