Mikil úrkomuákefð hefur verið á Seyðisfirði í gærkvöldi og í nótt. Í gærkvöldi voru þau svæði þar sem fólk í húsum var beðið um að gæta varúðar stækkuð. Í nótt féllu tvær skriður úr Nautaklauf sem er sami farvegur og stærsta skriðan á þriðjudaginn féll úr. Fyrri skriðan féll upp úr kl. 1 og önnur skriða féll um tveimur tímum seinna. Sú skriða tók með sér mannlaust timburhús og flutti um 50 m. Það hús var innan svæðis sem hafði verið rýmt. Í kjölfarið var staðan endurmetin og nokkur hús til viðbótar rýmd.
Búist er við að fari að draga úr úrkomuákefð þegar líður á morguninn og vonir standa til að ástandið skáni við það en svo gæti bætt í úrkomu seinnipartinn. Spáð er að stytti upp þegar líður á morgundaginn.
Vegna aðstæðna eru íbúar beðnir um að fylgjast vel með fréttum og vera ekki á ferðinni fyrr en í birtingu.