Hættustig er áfram í gildi á Seyðisfirði og óvissustig á Austurlandi vegna skriðuhættu. Mikil rigning var á Seyðisfirði frá klukkan 17 í gær og ákefðúrkomu enn meiri um kvöldmatarleitið. Skriða féll í nýjum farvegi um klukkan 21 og fór hún milli tveggja húsa. Í morgun hljóp svo í Búðará.
Veðurspá til morguns er óhagstæð og hefur appelsínugul úrkomuviðvörun Veðurstofu Íslands verið framlengd um sólarhring.
Minna hefur rignt á Eskifirði og í Neskaupstað og ástandið þar metið þokkalegt. Veðurspá gerir ráð fyrir að draga muni úr úrkomu á morgun og er gul úrkomuviðvörun í gildi frá klukkan 09:00 í fyrramálið til klukkan 16:00.
Í ljósi aðstæðna mun íbúum á rýmingarsvæði nú heimilað að huga að húsum sínum og eigum í samræmi við verklag sem notað var í gær og gafst vel.
Rétt er að gefa sig áður fram við vettvangsstjórn í húsi björgunarsveitarinnar Ísólfs og fá leiðbeiningar og fylgd inn á svæðið.
Veðurspá fyrir Seyðisfjörð er þess eðlis að ekki þykir óhætt að aflétta rýmingu að öðru leyti eða hættustigi. Næstu tilkynningar frá aðgerðastjórn er að vænta um klukkan þrjú í dag.