Ungmennaráð Múlaþings fundaði með sveitarstjórn þann 12. júní síðastliðinn. Fundurinn fór fram á Egilsstöðum og er fyrri fundurinn af tveimur sem ungmennaráð á með sveitarstjórn ár hvert. Á fundinum kynnti ungmennaráð Múlaþings niðurstöður frá Ungmennaþingi sem haldið var þann 16. apríl síðastliðinn.
Ungmennaþing 2024
Ungmennaþing er haldið annað hvert ár og í apríl 2024 komu saman allir 8.-10.bekkir í grunnskólum Múlaþings ásamt nemendum úr Menntaskólanum á Egilsstöðum. Yfirskrift ungmennaþingsins var „Hver eru áhrif netnotkunar og samfélagsmiðla á ungmenni.“
Viku fyrir ungmennaþingið var send út spurningakönnun á nemendur þar sem meðal annars kom fram að meirihluti barna byrjaði að nota samfélagsmiðla fyrir 11 ára aldur og eyða flest tveimur klukkustundum eða meira á netinu/samfélagsmiðlum á dag.
Á ungmennaþinginu voru vinnusmiðjur þar sem netnotkun var rædd frekar. Til dæmis var rætt um jákvæð og neikvæð áhrif samfélagsmiðla ásamt áhrifum þeirra á daglegt líf, sjálfsmyndina, andlega heilsu, svefn, félagslíf, nám og íþróttir og tómstundir. Að lokum var farið yfir úrlausnir og rætt um netnotkun ungmenna í framtíðinni.
Niðurstöður sýndu að ungmennum þótti netnotkun hafa áhrif á einbeitingu, athygli og heilsu og taka tíma frá þeim sem gæti farið í eitthvað mikilvægara. Einnig væri mikið um neikvæðar líkamsímyndir, klám, ofbeldi og almennan samanburð vera til staðar sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Á sama tíma eru líka kostir við netnotkun sé hún nýtt í þeim tilgangi. Ungmennin kölluðu meðal annars eftir úrbótum með aukinni fæðslu og afþreyingu í Múlaþingi til dæmis með því að bjóða upp á rafíþróttir, og fræða krakka um örugga leið til að nota netið. Einnig stungu þau uppá meiri hvatningu í að nýta tímann betur með fjölskyldu og vinum án þess að hafa símana með.
Mikilvægi þátttöku
Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur var á Íslandi árið 2013, eiga börn rétt á þátttöku og að hlustað sé á raddir þeirra í samfélaginu. Öflugt ungmennaráð er lykill að barnvænu sveitarféalagi og innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu og starfsemi Múlaþings. Til þess að börn og ungmenni geti haft áhrif á málefni sem þau snerta og samfélagið sem þau búa í er „mikilvægt að við látum heyra í okkur og segjum það sem okkur finnst því ef ekki við, hver þá og ef ekki núna, hvenær?“ segir Karítas Mekkín Jónasdóttir, formaður ungmennaráðsins.