Múlaþing hefur skrifað undir verksamning við MVA um framkvæmd verksins Baugur Bjólfs, útsýnisstaður við Seyðisfjörð.
Tilboðið hljóðar uppá 173.631.570. kr og verklok eigi síðar en 15.10.2025. Ætlunin er að klára steypta hlutann ásamt handriðum nú í sumar 2024. Stefnt er að því að klára sem mest á þessu ári en vegna þess að veður geta spillt fyrir framgangi verksins, er gefinn frestur fram í miðjan október 2025.
Baugur Bjólfs, útsýnissvæði við Seyðisfjörð er hringlaga útsýnispallur sem situr á Bæjarbrún. Þar verður einstakt útsýni yfir Seyðisfjörð — frá mynni fjarðarins, yfir bæinn, fjallahringinn og suðvestur inn í dalinn. Að ofanverðu gnæfa tindar Bjólfs yfir. Verkefnið hlaut hæsta styrkinn úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2023 með styrk upp á 158 milljónir kr.
Helstu verkþættir eru:
- Jarðvinna og yfirborðsfrágangur vegna mannvirkis og á aðkomusvæði.
- Uppsteypa mannvirkis með eftirspennu.
- Handrið úr stáli og lerki ásamt lerkihandlistum.