Stefán Jónsson fæddist á Hálsi í Hamarsfirði 9. maí 1923. Foreldrar hans voru Jón Stefánsson, skólastjóri á Djúpavogi, og kona hans, Marsilína Pálsdóttir kennari. Stefán bjó hjá foreldrum sínum í Rjóðri á Djúpavogi fram á unglingsár.
Fyrri kona Stefáns var Sólveig Halldórsdóttir, sem lést 1982, og eignuðust þau fimm börn. Meðal þeirra eru Hjörleifur arkitekt og Kári, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Seinni kona Stefáns var Kristjana Sigurðardóttir. Stefán var fréttamaður við Ríkisútvarpið 1946-1965 og dagskrárfulltrúi þar 1965-1973, harður hernámsandstæðingur og vinstrisinnaður eins og flestir þar á bæ. Hann kemur oft við sögu þegar rifjaðar eru upp smellnar vísur eða skemmtileg tilsvör frá gömlu útvarpsárunum.
Stefán var varaþingmaður fyrir Alþýðubandalagið 1971-74 og alþingismaður Norðurlandskjördæmis eystra 1974-1983. Hann var með skemmtilegri mönnum, mælskur, glettinn og mikill sögumaður sjálfur. Stefán hafði mjög djúpan en þýðan málróm sem naut sín vel í útvarpi, var prýðilegur rithöfundur og afburða hagyrðingur. Eftir hann liggur ævisögulegt efni, rit um þjóðleg efni, alþýðusagnir og um sportveiðar og bók hans, Að breyta fjalli, fjallar að mestu leyti um uppvaxtarár Stefáns á Djúpavogi.
Stefán lést 17. september 1990.
Eitt af því sem gert verður til að heiðra minningu Stefáns er að á ljósastaura í þorpinu verða fest 50 álskilti með tilvitnunum úr bókum hans, gangandi vegfarendum til gagns og gamans. Dæmi um tilvitnanir sem ljósastaurarnir fá:
„Einhverntímann heyrði ég föður minn komast svo að orði að fáa menn þekkti hann jafnskilda sjálfum sér og hann.“ (Að breyta fjalli).
„Stundum flýjum við frá leiðinlegum vandamálum forskrúfaðrar tilveru á vit stangarveiðinnar. En það er ekki flótti frá lífinu, heldur flótti til lífsins.“ (Roðskinna).
Verkefnið er styrkt af Múlaþingi og fellur vel að Cittaslow markmiðum Djúpavogs með því að hampa sögu og einkennum staðarins, fólki til gagns og gamans og þannig auka lífsgæði bæjarbúa.
Bækur eftir Stefán:
Krossfiskar og hrúðurkarlar (1961)
Mínir menn (1962)
Þér að segja (1963)
Jóhannes á Borg (1964)
Gaddaskata (1966)
Líklega verður róið í dag (1967)
Ljós í róunni (1968)
Roðskinna (1969)
Nú, Nú, - bókin sem aldrei var skrifuð (1970)
Með flugu í höfðinu (1971)
Að breyta fjalli (1987)
Lífsgleði á tréfæti (1989)