Á Austurlandi eru 71 í einangrun og 77 í sóttkví samkvæmt uppfærðum tölum á covid.is. Í gær voru tekin um 240 sýni á Reyðarfirði, Egilsstöðum og Vopnafirði og úr þeim sýnatökum greindust milli 20-30 ný smit. Í fyrradag, mánudaginn 3. janúar, var engin sýnataka vegna veðurs. Fleiri sýni voru því að líkindum tekin í gær en ella.
Með auknu umfangi verður flóknara að halda utan um hversu mörg ný smit greinast í umdæminu þar sem lögheimilisskráning smitaðra ræður skráningu en dvalarstaður er mögulega annar. Aðgerðastjórn þarf að forgangsraða verkefnum og áherslan er nú fyrst og fremst að bregðast við þeim nýju smitum sem koma upp, en síður að rýna hversu mörg smit greinast hverju sinni og staðsetningu þeirra. Ljóst er enda að smit eru mjög dreifð, þau eru mörg og þau finnast í nærumhverfi okkar allra. Smit hafa þegar haft áhrif á innviði og stofnanir á Austurlandi líkt og á öðrum stöðum á landinu.
Varðandi tölur um fjölda smita er vísað til tölulegrar samantektar á Covid.is og staðsetningu smita á Rúv Kveiks kortinu sem hægt er að hafa til hliðsjónar.
Nú sem áður gildir að fólk með einkenni haldi sig til hlés, fari í PCR sýnatöku og bíði heima eftir niðurstöðu. Einnig skiptir miklu að sinna vel persónubundnum sóttvörnum, handþvotti og sprittun og muna eftir grímunni. Jákvætt er að nú styttist mjög í að foreldrum 5 – 11 ára barna standi til boða bólusetning gegn Covid-19 fyrir sín börn.
Höldum áfram að gera þetta saman.