Aðeins eitt nýtt smit hefur greinst á Austurlandi úr sýnatöku frá því á fimmtudag, þar sem 531 sýni var tekið.
Vert er að þakka íbúum fjórðungsins fyrir góða þátttöku í skimunum síðustu daga. Ljóst er að niðurstöður gefa tilefni til bjartsýni.
Áfram þurfum við að vera vakandi fyrir hugsanlegum einkennum og fara í PCR sýnatöku ef þeirra verður vart.
Vegna óvissu um flugveður í dag, laugardag, er ekki talið rétt að setja upp aukaopnun. Opið verður í sýnatökur á morgun, sunnudag, á Reyðarfirði frá 9-10:30 og á Egilsstöðum frá 12-13:30. Hægt er að bóka sýnatöku á heilsuvera.is.
Skólahald í grunnskólanum á Eskifirði, grunnskólanum á Reyðarfirði og í leikskólanum Lyngholti hefst að nýju á mánudagsmorgun. Áréttað skal að bæði börn og starfsmenn skólanna sem eru í sóttkví þurfa að ljúka henni, mæta í síðari sýnatöku og bíða niðurstöðu áður en þau mæta í skólann.