Fara í efni

Tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi - covid 19

02.12.2021 Fréttir Covid - 19

Fjögur COVID-19 smit greindust á Austurlandi í morgun, þar af tvö utan sóttkvíar. Annað þeirra var á Egilsstöðum og hitt á Fáskrúðsfirði. Rakning stendur yfir.

 

Af öryggisástæðum var hluta leikskólans á Tjarnarlandi á Egilsstöðum lokað í dag vegna smits en ákveðið af hálfu aðgerðastjórnar að allar deildir skólans muni lokaðar á morgun. Starfsmenn, foreldrar og forráðamenn barna á leikskólanum eru af þessum sökum hvattir til að skrá sig og börn sín í sýnatöku á morgun gegnum heilsuvera.is. Aðrir sem telja sig mögulega útsetta fyrir smiti eru og hvattir til að fara í sýnatöku.

 

Staða COVID mála á Austurlandi er nokkuð óvenjuleg, talsvert af smitum er að greinast og þau verið dreifð í umdæminu. Það er áhyggjuefni. Af þessum sökum eru íbúar hvattir til sérstakrar varkárni, hvattir til að huga vel að persónubundnum smitvörnum og gæta vel að sér í margmenni. Þá er athygli stjórnenda vinnustaða og félagasamtaka vakin á þessari stöðu og þeir hvattir til að huga vel að ráðstöfunum til að koma í veg fyrir smit innan þeirra raða.

 

Að endingu eru íbúar sem fyrr hvattir til að fara í PCR sýnatöku finni þeir til minnstu einkenna.

 

Höldum áfram að gera þetta saman.

Tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi - covid 19
Getum við bætt efni þessarar síðu?