Um 200 sýni voru tekin í fyrradag á Vopnafirði, Egilsstöðum og Reyðarfirði. Ljóst að um 20 ný smit hafa bæst við úr sýnatökum síðastliðna tvo daga. Það er þó erfitt að segja nákvæmlega hversu mörg smit greindust hvorn dag fyrir sig því mikið álag var á veirufræðideildina og töluverð töf á greiningu sýna. Íbúar og starfsmenn Sundabúðar skimaðir á Vopnafirði og voru öll sýni neikvæð. Áfram gætu þó bæst við smit, en töluverður fjöldi er í sóttkví og bíður seinni sýnatöku sem verður 2. janúar.
Smitin sem greindust eru dreifð um allt Austurland. Aldrei áður hafa smit í umdæminu greinst í jafn mörgum póstnúmerum á sama tíma. Staðan hjá okkur er því greinilega að þyngjast sem er í takt við stöðu á landsvísu. Aðgerðastjórn treystir á áframhaldandi samstöðu íbúa við að hefta útbreiðslu veirunnar. Gildir þá helst að sinna persónubundnum sóttvörnum, fara varlega í margmenni, halda sig heima ef við finnum fyrir einkennum og fara í PCR sýnatöku.
Í dag, nýársdag, er lokað í sýnatöku og engin flug á áætlun. Við hvetjum fólk til að nýta sér opnun í sýnatöku á morgun sunnudag, 2. janúar, en þá er opið á Reyðarfirði kl. 9-10, á Egilsstöðum kl. 11-12 og á Vopnafirði kl. 13-13:30. Það er mikilvægt að þeir sem veikjast eða finna fyrir einkennum í dag og á morgun haldi sig heima og til hlés og bíði eftir PCR sýnatöku á sunnudag.
Munum eftir grímum, spritti og förum varlega í margmenni.