Síðustu daga hefur orðið mikil aukning í fjölda COVID-19 smita á landinu öllu og ljóst að útbreiðslan er töluverð. Þá eru sífellt fleiri að greinast utan sóttkvíar sem þýðir að hópsýkingar eða dreifðari smit geta stungið sér niður hvar sem er. Á Vopnafirði hefur komið upp grunur um smit og því verið ráðist í að taka sýni af þeim sem því kunna að tengjast. Aðgerðastjórn fylgist grannt með og mun senda út tilkynningu þegar niðurstöður sýnatöku liggja fyrir, að líkindum í dag.
Nú sem aldrei fyrr skiptir miklu að ef við finnum til einkenna sem geta bent til COVID-19 smits að þá förum við í PCR sýnatöku og höldum okkur heima meðan beðið er eftir niðurstöðu. Þannig drögum við úr líkunum á útbreiðslu smita. Þá skipta okkar persónulegu sóttvarnir miklu í baráttunni við þennan faraldur, handþvottur, sprittun og notkun grímu eins og við kunnum öll svo vel.
Gerum þetta saman, nú sem fyrr.