Vegna fjölda smita sem greinst hafa á landinu síðustu vikur hafa sóttvarnareglur sem kunnugt er verið stórhertar með reglugerð heilbrigðisráðherra frá í gær. Tóku þær gildi á miðnætti og gilda til 15. apríl.
Aðgerðastjórn hvetur íbúa til að rýna reglurnar vel og fylgja í hvívetna sem fyrr. Helstu breytingarnar lúta að fjöldatakmörkunum sem nú eru komnar niður í tíu. Með vísan til þess sem og tveggja metra reglu og snertiflata þá eru allar líkamsræktarstöðvar eða þjálfunarstöðvar nú lokaðar sem og sund, baðstaðir og skíðasvæði. Skólar eru og lokaðir utan leikskóla. Í fermingarveislum mega ekki vera fleiri en tíu manns. Krár eru lokaðar.
Veitingastaðir eru opnir og geta tekið á móti allt að tuttugu gestum. Allir gestir eru þá í númeruðum sætum undir nafni, kennitölu og símanúmeri. Hólfaskipting veitingastaða með það að markmiði að taka á móti fleiri gestum lítur aðgerðastjórn svo á að sé óheimil. Veitingastaðir mega hafa opið til klukkan 22. Engum er heimil innganga á veitingastað eftir klukkan 21.
Aðgerðastjórn hvetur fyrirtæki og stofnanir til að nota tækifærið og rýna starfsemina vel með nýju reglugerðina í huga og gera allar þær ráðstafanir sem þarf til að tryggja að eftir henni sé farið. Í því sambandi er hvatt til samtals og samvinnu við starfsfólk þar sem reglurnar eru kynntar og farið yfir það sameiginlega hvernig best verði farið eftir þeim og réttast.
Í stuttu máli erum við komin á fornar slóðir fyrri bylgna faraldursins með þeim ströngu reglum er þá giltu. Helstu breytingarnar lúta að óformlegum leiðbeiningum sóttvarnaryfirvalda varðandi ferðalög. Þó ekki sé beinlínis hvatt til þeirra utanhúss að þessu sinni þá er áherslan ekki heldur á ferðalag innanhúss líkt og var um síðustu páska. Þess í stað er lagt fyrir fífldjarfa ferðalanga sem hyggjast leggja í hann að fara þá ofurvarlega á ókunnum lendum. Í því felst að halda sínum ranni þétt að sér og öðrum frá, sem og að gæta að persónubundnum sóttvörnum; tveggja metra reglu, grímunotkun, handþvotti og sprittun snertiflata.
Förum varlega hvar sem við erum og brokkum þannig hnarreist gegnum þennan skafl líkt og aðra sambærilega er fyrir okkur hafa orðið.