Tveir eru enn í einangrun á Austurlandi frá því á mánudag í síðustu viku. Báðir eru við ágæta heilsu og standa vonir til að þeir ná fullri heilsu fljótlega.
Bólusetningar ganga vel og framboð á bóluefni er gott. Aðgerðastjórn hvetur fólk til að nýta sér það og mæta þegar það fær boð um bólusetningu. Með bólusetningu tryggjum við eigið öryggi en verjum líka okkar nánustu og stuðlum að hinu eftirsótta hjarðónæmi í samfélaginu.
Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur um helgina þar sem skipuleggjendur og gestir gættu prýðilega að sóttvörnum. Áskorun okkar í því samhengi er all nokkur, að halda stefnu í því blíðviðri sem nú ríkir ekki síður en í þeim stórsjó sem vonandi er að baki. Reynslan hefur sýnt að veðrabreytingar geta verið skyndilegar. Um þær höfum við hins vegar nokkuð að segja sjálf. Gætum því að okkur hvert og eitt, munum persónubundnar sóttvarnir og stuðlum þannig að áframhaldandi blíðu.
Njótum sumarsins.