Norræna kom í gær til Seyðisfjarðar og fóru 296 farþegar í land. Af þeim framvísuðu 222 gildum bólusetningarvottorðum. Það er svipað hlutfall og hjá flugfarþegum er fara um Leifsstöð. Óbólusettir virðast því flestir halda sig heima við enn sem komið er.
Hátíðisdagur sjómanna er á sunnudag. Aðgerðastjórn hvetur af þeim sökum sjómannadagsráð og nefndir til að huga vel að sóttvarnareglum við skipulag hátíðahalda. Sérstaklega er brýnt að skipulagið miði að fullri stjórn á aðstæðum hverju sinni með það að markmiði meðal annars að fjöldi á hverjum stað eða svæði verði aldrei meiri en reglur leyfa. Ábyrgð skipuleggjenda er rík en hún liggur einnig hjá okkur er sækjum hátíðahöldin heim, að við gætum að og gerum okkar til að þau fari vel fram.
Aðgerðastjórn hvetur sem fyrr fyrirsvarsmenn íþróttakappleikja og gesti þeirra til að muna eftir grímuskyldunni. Á íþróttaviðburðum er hún skýlaus.
Enn er COVID veiran á sveimi svo sem nýleg dæmi sanna. Andvaraleysi er því ekki í boði. Njótum tilslakana en gætum á sama tíma að því að fara ekki svo hratt um dyr gleðinnar að þær skellist enn á ný. Höldum þeim opnum og gerum það saman.