Í síðustu tilkynningum aðgerðastjórnar hefur endurtekið verið lögð rík áhersla á mikilvægi sýnatöku almennt en sérstaklega hefur orðum aðgerðastjórnar verið beint til þeirra sem hafa einkenni eða telja sig útsetta fyrir smiti. Viðbrögð hafa verið virkilega góð og þátttaka í sýnatöku mikil. Í gær sunnudag voru tekin 239 sýni á Egilsstöðum og Reyðarfirði auk þess sem sýnataka var á Vopnafirði. Þáttaka þessi er afar jákvæð og ekki síður að úr einangrun síðastliðna daga útskrifuðust fleiri einstaklingar en þeir sem greindust með smit. Þeim fækkar því sem eru í einangrun vegna smita, en þeir nú 105 á Austurlandi. Þessi þróun bendir til að takast muni að ná böndum á þeirri slæmu þróun í smitbylgjunni sem uppi var fyrir nokkrum dögum hér eystra.
Foreldrar og forráðamenn grunnskólabarna í Eskifjarðarskóla, Grunnskóla Reyðarfjarðar og Nesskóla eru beðnir að fylgjast vel með tilkynningum á Mentor og kynna sér upplýsingar um skólastarfið framundan.
Sú jákvæða þróun sem að framan er lýst byggir á samstilltu átaki alls og allra í samfélaginu okkar á Austurlandi. Aðgerðastjórn þakkar íbúum góð viðbrögð og þátttöku í persónulegum smitvörnum og treystir á áframhaldandi góða samvinnu. Í hönd fer tími þorrablóta sem er tengdur samveru og hópamyndun í hugum okkar margra. Í því sambandi skal minnt á gildandi hópatakmörk við 10 manns og það að virða þau mörk er mjög mikilvæg sóttvarnaaðgerð.