Í lok árs 2021 gerði Gallup sína árlegu könnun um ánægju íbúa með þjónustu sveitarfélaga. Könnunin var gerð meðal tuttugu stærstu sveitarfélaga landsins.
Múlaþing var eitt þeirra sveitarfélaga sem tóku þátt í könnuninni þar sem spurt var um ýmsa málaflokka. Byggðaráð fékk könnunina til kynningar á þriðjudaginn en svið stjórnsýslunnar munu taka niðurstöðurnar til umfjöllunar og úrvinnslu. Samkvæmt upplýsingum frá Gallup minnkar ánægja íbúa flestra sveitarfélaga á Íslandi milli áranna 2020 og 2021 og er trúlegt að lækkunina megi að einhverju leyti rekja til áhrifa vegna alheimsfaraldursins COVID-19.
Almennt kemur Múlaþing vel út í könnuninni í samanburði við önnur sveitarfélög. Á heildina litið eruð 82% íbúanna ánægð með Múlaþing sem stað til að búa á.
Viðhorf íbúa til þjónustu skóla og gæði umhverfisins í nágrenni við heimili lýsa einnig ánægju. Eins og víða hjá sveitarfélögum eru það skipulagsmálin almennt sem minnst ánægja er með hjá Múlaþingi. Könnunin í heild lýsir almennt jákvæðu viðhorfi íbúa til þjónustu sveitarfélagsins en varpar þó einnig ljósi á tækifæri til úrbóta á ýmsum sviðum.
Vakin er athygli á því að eldri tölur en árið 2020 fyrir Múlaþing í könnuninni sýna viðhorf íbúa Fljótsdalshéraðs eingöngu.