Þann 18. janúar síðastliðinn var Mannamót haldið í Kórnum í Kópavogi, en það er árleg ferðakaupstefna sem haldin er af Markaðsstofum landshlutanna.
Á ráðstefnunni má kenna ýmissa grasa frá öllum landshlutum. Þar má finna bása frá einyrkjum sem og stórfyrirtækjum og þar eru bæði opinberir- og einka aðilar.
Sveitarfélögin Múlaþing, Fjarðabyggð og Vopafjarðahreppur tóku höndum saman og voru með bás á kaupstefnunni. Við básinn var stór skjár sem sýndi fallegar myndir frá Austurlandi öllu, á borðinu voru síðan ljósmyndir og munir sem tengjast fjórðungnum eins og til dæmis lundi, útskorin hreindýr og tvíþumla sjóvettlingar. Þá höfðu sveitarfélögin látið útbúa lukkuhjól sem vakti mikla kátínu og skapaði samtal við gesti og gangandi. Vinningarnir á lukkuhjólinu voru ekki af verri endanum en þátttakendur gátu unnið sér inn frímiða í sund eða á skíði, aðgang að söfnunum á Austurlandi, samtal við Austfirðing, miða í berjamó, rölt í Hafnarhólmann á Borgarfirði og ávísanir í fugla- og fossaskoðanir svo fátt eitt sé nefnt.
Haraldur Líndal upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar segir mikilvægt fyrir ferðaþjónustuaðila að koma saman á kaupstefnu sem þessari og sýna sig og sjá aðra og þannig kynna sinn landshluta og þá þjónustu sem er í boði.
Spurð út í mikilvægi þátttöku sveitarfélaganna á Mannamótum segir Aðalheiður Borgþórsdóttir atvinnu- og menningarstjóri Múlaþings að ,,Sveitarfélögin eru í raun stærstu ferðaþjónustuaðilarnir. Í þeirra umsjá eru ýmsir innviðir, þjónustustofnanir, söfn, sundlaugar og fleira. Það er því mikilvægt að þau taki þátt í Mannamótum, kynnist hinni fjölbreyttu ferðaþjónustu sem þrífst í fjórðungnum og kynni fyrir áhugasömum hvað það er sem sveitarfélögin annast.“
Austurland vakti mikla athygli enda höfðu þátttakendur stillt saman strengi sína, básarnir höfðu sameiginlegt útlit sem Austurbrú hefur lagt dug í að hanna og framkvæma, og gleði og samstarf einkenndi ganginn. Íris Edda Jónsdóttir skrifstofufulltrúi Vopnafjarðarhrepps hafði orð á því að ,,það var metþátttaka frá Austurlandi á Mannamótum í ár og sýnir sig að mikil gróska er í ferðaþjónustu í landshlutanum. Það var ánægjulegt að sjá samstöðu fulltrúa Austurlands með sameiginlegu útliti, miklum metnaði og fjölbreyttu og öflugu aðdráttarafli.“
Samstarf sveitarfélaganna endurspeglaði samtakamáttinn og samvinnuna í landshlutanum og var til þess fallið að lyfta upp og vekja athygli á því frábæra stafi sem á sér stað innan ferðaþjónustunnar.
Sveitarfélögin þakka Austurbrú fyrir allt utanumhald og vel unnin störf í þágu sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila.