Fara í efni

Sumarfrístund á Djúpavogi

08.06.2021 Fréttir Djúpivogur

// ENGLISH BELOW //

Í sumar verður boðið upp á Sumarfrístund fyrir börn fædd 2012 – 2014 (sem voru að ljúka 1.-3. bekk) á Djúpavogi. Starfið verður yfir 3 vikna tímabil sem hefst mánudaginn 14. júní og lýkur föstudaginn 2. júlí og verður alla virka daga klukkan 09:00- 12:30.

Áhersla verður lögð á sköpun, sjálfstæðan leik, hópeflingu, sjálfsbjargarviðleitni, náttúrutengingu, færni, fræðslu og fjör. Auk þess verður mikil áhersla lögð á virðingarrík samskipti, valdeflandi verkefni og vellíðan með hæglæti að leiðarljósi.

Þátttakendur mæta í Neista alla morgna og þaðan er haldið í allskonar ævintýri. Stefnt er á að vera sem allra mest úti. Mikilvægt er að þátttakendur séu alltaf klæddir eftir veðri, með aukaföt og nesti.

Innifalið: ávaxtatími, hádegismatur á föstudögum, gæsla, fræðsla, fjölbreytt afþreying, tækifæri og efniviður til sköpunar og verkefnamöppur:

  • Leikir, hreyfing og hljóð: Ýmiskonar leikir, hreyfing, teygjur, hugleiðslur, söngur, spuni og fleira.
  • Verkefni og þrautir - sjálfsefli: Fjölbreytt skrifleg, munnleg og leikin verkefni og þrautir sem efla sjálfsþekkingu og sjálfsöryggi.
  • Flæði og fjör - hópefli: Verkefni og þrautir sem unnin eru í hópum, reynir á styrkleika hvers og eins innan hópsins og hópinn í heild.
  • Sköpun og föndur: Allskonar sköpun og hugmyndaflæði: föndur, teikningar, málun, hnútar, slím, drullumall, náttúrulistir, smíðar og allskonar.
  • Víkingar og villibörn: Lögð verður mikil áhersla á náttúrutengingu í villtri náttúru með víkingaþema. Þátttakendur fá að lifa og leika sér eins og víkingar með náttúrulegum efnivið.
  • Gönguferð: Minnst einu sinni í viku er farið í langa ferð. Í ferðunum verður Djúpivogur, náttúran, sagan og fleira rannsakað á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt. Aðra daga verður farið í styttri ferðir.
  • Úti eldun: Þátttakendur úti-elda sjálfir alla föstudaga og borða svo það sem matreitt er. Síðasta föstudaginn er foreldrum boðið í mat milli kl. 12-13.
  • Samstilling, tengsl og kveðjustund: Hver dagur hefst á að farið verður yfir daginn og þátttakendur segja hvað þeir vilja fá út úr deginum. Í lok dags er mikilvægt er að draga andann, fara yfir daginn, tjá sig og kveðja.

Verð fyrir hverja staka viku er 8.000 krónur og 3 vikur saman á 20.000 kr.

Systkinaafsláttur er 20%

Lokafrestur til að skrá í Sumarfrístund er fimmtudagur 10. júní.

 

Forstöðuaðili Sumarfrístundar 2021 er Ágústa Margrét Arnardóttir.

Skráning er í gegnum Mínar síður á heimasíðu Múlaþings, undir flipanum „Tómstundir.“

Nánari upplýsingar á póstfanginu agusta.arnardottir@mulathing.is.

 

Ath. Foreldrar og forráðamenn eru beðnir að ganga í lokaða facebook grúbbu á meðan á Sumarfrístundinni stendur þar sem forstöðuaðili mun deila upplýsingum, myndum og fleira.

English

Sumarfrístund á Djúpavogi
Getum við bætt efni þessarar síðu?