Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk hefst ár hvert á degi íslenskar tungu þann 16. nóvember á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar og lýkur í mars með lokahátíðum í skólum og Héraðshátíð.
Héraðshátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk fór fram í Egilsstaðaskóla þann 23. mars síðasliðinn. Á Héraðshátíðinni kepptu 11 nemendur, frá Egilsstaðaskóla, Fellaskóla, Brúarásskóla, Seyðisfjarðarskóla og Vopnafjarðarskóla í upplestri en þeir höfðu áður verið valdir á hátíðum í sínum skólum.
Í upphafi hátíðarinnar flutti Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri ávarp þar sem hún minntist Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar og fyrrum alþingismanns sem einmitt var skáld hátíðarinnar að þessu sinni. Þátttakendur í keppninni lásu bæði texta Guðrúnar Helgadóttur og ljóð ýmissa rithöfunda og fór keppnin fram í þremur umferðum. Nemendur skólanna stóðu sig allir mjög vel. Nemendur úr Tónlistarskólanum á Egilsstöðum fluttu tónlistaratriði við setningu hátíðarinnar og á meðan dómnefnd starfaði.
Fjögurra manna dómnefnd valdi þá þrjá nemendur sem þóttu lesa best. Nemendur úr Egilsstaðaskóla urðu sigursælastir þetta árið og skipuðu nemendur þaðan þrjú efstu sætin. Í fyrsta sæti varð Sólgerður Vala Kristófersdóttir, í öðru sæti Árný Birna Eysteinsdóttir og í þriðja sæti Arnar Harri Guðmundsson. Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri veitti viðurkenningar fyrir þrjú efstu sætin en allir þátttakendur hlutu viðurkenningarspjöld og rauðar rósir fyrir flutning sinn. Við óskum sigurvegurum innilega til hamingu svo og öllum þátttakendum í keppninni sem eins og fyrr segir stóðu sig öll með mikilli prýði og augljóst er að lögð hefur verið rækt við verkefnið í skólunum. Jarþrúður Ólafsdóttir hafði umsjón með hátíðinni og stjórnaði keppninni.