Norræna kom í gær til Seyðisfjarðar með 55 farþega innanborðs. Fimmtíu og einn þeirra fór í sýnatöku en fjórir hugðust halda áfram með skipinu og fóru því ekki í land. Tuttugu og tveir farþeganna fengu gistingu á sóttvarnarhótelinu í Hallormsstað. Aðrir ljúka sóttkví sinni annarsstaðar þar sem yfirvöld heimila.
Gert er ráð fyrir að ríflega ellefu hundruð íbúar Austurlands verði bólusettir í þessari viku. Eru þá ríflega fjögur þúsund ýmist full bólusettir eða þeir hafið bólusetningu. Það er rétt um fjörutíu prósent íbúa. Skipulagning og umsjón þessa verkefnis hefur hvílt á starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Austurlands, HSA. Um gríðarstórt verkefni er að ræða og viðamikið. Það hefur gengið vel og þykir ástæða til að hrósa HSA fyrir þeirra þátt og ekki síður íbúum, en velvild þeirra, þolinmæði, þrautseigja og sveigjanleiki hefur átt stóran þátt í snurðulausum gangi þess.
Að endingu vekur aðgerðastjórn athygli á að ferðamönnum fer nú fjölgandi á landinu með auknum fjölda flugfarþega sér í lagi. Í því felast tækifæri en einnig áskoranir þegar litið er til sóttvarna. Gætum því að okkur sem fyrr og stuðlum þannig að ánægjulegu sumri.
Gerum þetta saman.