Þeir þéttbýliskjarnar sem mynda hið unga sveitarfélag Múlaþing eru um margt ólíkir þegar kemur að náttúru, umhverfi og jafnvel veðurfari. Hefðir og afstaða til garðyrkju og gróðurs á hverjum stað eru breytilegar og mótaðar af þessum aðstæðum.
Ef betur er að gáð eiga þessir staðir þó margt sameiginlegt. Ekki síst það hvernig hin villta náttúra tvinnast saman við byggðina. Víða í nágrannalöndum er sú þróun að verða áberandi að endurskapa náttúruna inni í bæjum og borgum. Græn þök með gróðri, þakgarðar á stærri húsum, grænir veggir og almenningsgarðar þar sem reynt er að líkja eftir náttúrunni. Þessi þróun er að eiga sér stað hér á landi líka og er eitt megin viðfangsefni garðyrkjunnar í dag. Það einstaka og áhugaverða við þéttbýlisstaðina í Múlaþingi er að þetta er allt fyrir hendi nú þegar. Villtur gróður, klettar og óhreyfð svæði tvinnast saman við byggðina. Þetta einkenni þéttbýlisstaða í Múlaþingi eru í sjálfu sér einstök verðmæti á okkar tímum þar sem umhverfismál eru sífellt að verða mikilvægari.
Þegar kemur að skipulags- og umhverfismálum gefur þetta mikla möguleika en um leið er það áskorun og ábyrgð að taka tillit til þessarar sérstöðu. Ekki síst þegar kemur að garðyrkjunni. Þarna kemur líka til þessi fína lína um hvað telst fallegt náttúrulegt umhverfi og hvað er órækt. Þau mörk eru ekki alltaf skýr.
Flest viljum við að gras sé slegið, illgresi hreinsað og trjágróður klipptur til að skapa snyrtilegt umhverfi. En þó þarf ekki að slá gras inni í skógi og ekki í klettabeltum þar sem náttúrulegur og fjölbreyttur gróður sér um sig sjálfur. Hvar liggja þessi mörk milli þess villta og þess snyrtilega? Oftast er auðvelt að átta sig á því og flest höfum við mótaðar skoðanir á hvar sé eðlilegt að láta náttúruna njóta sín og hvar ástæða sé til að sinna umhirðu af meiri natni.
Þessar vikur sem ég hef starfað sem garðyrkjustjóri hef ég talað við íbúa. Reynt að kynna mér afstöðu til garðyrkju á hverjum stað og einkenni hvers þéttbýliskjarna. Víða mætti auka gróður og áhugi virðist vera fyrir því á öllum stöðum. Þar kemur til greina að búa til fleiri gróðurbeð innan bæjarmarka með slegnu grasi í kring í anda hefðbundinnar skrúðgarðyrkju. En einnig að vinna í anda villtra svæða og færa náttúruna enn meira inn í þéttbýlið. Nota tré, runna og blómgróður til að líkja eftir náttúrunni.
Sú spurning sem ég hef stundum velt fyrir mér á undanförnum vikum er, þorum við að vera örlítið meira villt?
Jón Kr. Arnarson
Garðyrkjustjóri Múlaþings.