Sorphirðudagatöl fyrir árið 2024 eru komin á heimasíðu sveitarfélagsins.
Gerð var tilraun til að hafa reiti dagatala í sömu litum og tunnumerkingar þeirra flokka sem losaðir eru hverju sinni. Blandaður úrgangur og matarleifar eru losuð saman og því eru reitir svartir og grænir. Þá eru pappír og plast losuð saman og því eru reitir fjólubláir og bláir. Þegar úrgangsflokkar eru losaðir saman eru þeir losaðir í tveggja hólfa sorphirðubíl og því blandast úrgangsflokkar ekki saman.
Í sorphirðudagatali fyrir Djúpavog eru losunarreitir grænir og bláir auk þess að vera röndóttir. Það orsakast af ólíkri hirðutíðni í dreifbýli og í þéttbýli. Blönduðum úrgangi og matarleifum er safnað á fjögurra vikna fresti í þéttbýli og dreifbýli en pappa og plasti er safnað á fjögurra vikna fresti í þéttbýli en á sex vikna fresti í dreifbýli. Það ræðst einkum af stærri ílátum undir pappa í dreifbýli.
Í dreifbýli á Fljótsdalshéraði hefur svæðum verið skipt niður á hirðudaga í stað fyrri viku og seinni viku líkt og áður. Losun fyrir Jökuldal er sérmerkt en síðan raðast losanir á öðrum svæðum samkvæmt töflu í dagatalinu. Þannig er Hlíð – Tunga losuð næst, síðan Hjaltastaða- / Eiðaþinghá og þannig koll af kolli.
Söfnun á heyrúlluplasti er áfram merkt með gulu en reynt var að hafa jafnt bil milli hirðu eða þrjá mánuði.
Ábendingar eða athugasemdir í tengslum við dagatölin má senda á umhverfisfulltrui@mulathing.is.