Dagana 25.-28. september verða haldin skóla- og íbúaþing í öllu Múlaþingi, en þingin eru hluti af vinnu fjölskyldusviðs við fjölskyldustefnu sveitarfélagsins.
Á skólaþingum verður unnið með öllum nemendum grunnskóla sveitarfélagsins á mismunandi vegu til að ræða þær tillögur og hugmyndir sem nemendur hafa varðandi t.a.m. skóla, samfélagið og fjölskylduna í Múlaþingi.
Á íbúaþingum er leitast við samráði við íbúa sveitarfélagsins, á öllum aldri, um málefni fjölskyldunnar í víðum skilningi, en fjölskyldustefnan tekur til allra málaflokka sem falla undir starfssvið Fjölskyldusviðs, félagsþjónustu, málefna fatlaðra, málefna aldraðra, æskulýðs- og tómstundamál, íþróttir og starfsemi skóla. Notast verður við aðferð sem nefnist Heimskaffi (e. World Cafe) og sitja þau sem mæta í litlum hópum ásamt hópstjóra og ræða ákveðin málefni. Þátttakendur skipta svo um borð eftir ákveðinn tíma til að ræða önnur mál.
Til að fjölskyldustefna sveitarfélagsins endurspegli sem best þarfir samfélagsins er mikilvægt að sjónarmið sem flestra íbúa og hópa heyrist í undirbúningsvinnunni og því er fólk hvatt til þess að mæta á íbúaþing og láta sig málin varða.