Meðal aðgerða stjórnvalda vegna Covid-19 er styrkur sem hægt er að sækja um til sveitarfélaga vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna. Styrkurinn er veittur vegna barna sem eru fædd á árunum 2005–2014 og búa á heimilum þar sem heildartekjur framfærenda, einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks, voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars–júlí 2020.
Áður en sótt er um styrkinn þarf að kanna hvort heimilið falli undir ofangreint tekjuviðmið. Það er gert með því að skrá sig inn á Island.is með rafrænum skilríkjum. Athugið að sé um hjón/sambúðarfólk að ræða þurfa báðir aðilar að samþykkja að upplýsingar um tekjur séu sóttar til skattayfirvalda (RSK) svo hægt sé að staðfesta hvort heimilið falli undir tekjuviðmiðið eða ekki.
Styrkurinn er allt að 45.000 kr. fyrir hvert barn og greiðist hann vegna útlagðs kostnaðar við íþrótta- og tómstundastarf á skólaárinu 2020- 2021. Ekki er heimilt að nýta íþrótta- og tómstundastyrk til greiðslu á tækjum, búnaði, fatnaði og ferðum.
Markmið frístundastyrkja er að gera börnum kleift að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag fjölskyldna, efla íþróttastarf og annað forvarnarstarf. Einnig á styrkurinn að vinna gegn óæskilegu brotthvarfi í eldri aldurshópum iðkenda.
Hér má nálgast reglur um úthlutun styrksins og kanna rétt á styrk eða sækja um hann