Fara í efni

Samið um endanlega hönnun viðbyggingar við Safnahúsið á Egilsstöðum

02.09.2024 Fréttir Egilsstaðir

Múlaþing hefur samið við arkitektastofuna ARGOS um hönnun á næsta áfanga Safnahússins á Egilsstöðum, þann hluta sem í daglegu tali er nefndur burst 2.
Saga hússins er orðin nokkuð löng en útlitsteikningar að veglegu safnahúsi með þremur burstum lágu fyrir snemma á níunda áratugnum og fyrsta skóflustungan var tekin árið 1982. Fyrsta áfanga byggingarinnar var þó ekki lokið fyrr en árið 1995 en það ár fluttu söfnin þrjú, Bókasafn Héraðsbúa, Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Minjasafn Austurlands, inn í húsið sem hefur hýst starfsemi þeirra síðan. Talsvert vatn hefur runnið til sjávar frá því þessi fyrsti áfangi var kláraður og tímabært að hafist sé handa við annan áfanga, enda aðstöðu í húsinu nokkuð ábótavant fyrir þá starfsemi sem því er ætlað að hýsa.

Skriður komst á áform um viðbyggingu við húsið árið 2018 þegar skrifað var undir samkomulag milli sveitarfélagsins og þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneytis um uppbyggingu menningarhúss á Egilsstöðum í tveimur byggingum, annars vegar Safnahúsinu og hins vegar í Sláturhúsinu. Unnið hefur verið á grundvelli þessa samkomulags síðan, en framkvæmdum við Sláturhúsið var formlega lokið árið 2022. Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings þann 20. febrúar 2023 var byggingarnefnd menningarhúsa á Egilsstöðum svo falið að hefja hönnunarferli annars áfanga Safnahússins. Hefur sú vinna verið unnin í samstarfi við forstöðufólk safnanna í húsinu og arkitekta ARGOS, þá Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon, en Stefán er upphaflegur arkitekt hússins.

Samkomulagið sem nú hefur verið gert gerir ráð fyrir að allar endanlegar teikningar verði tilbúnar fyrir 1. maí 2025 og verður framkvæmdin boðin út í beinu framhaldi af því. Með viðbyggingunni er gert ráð fyrir stórbættu aðgengi, einkum að bókasafninu sem færist niður á aðalhæð hússins, bættri vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk og auknu og sveigjanlegra sýningarrými fyrir söfnin.

Samið um endanlega hönnun viðbyggingar við Safnahúsið á Egilsstöðum
Getum við bætt efni þessarar síðu?