Nú er snjórinn að hverfa og trjágróður að koma undan sköflunum. Því má fara að huga að klippingu trjáa og runna. Á sumum stöðum geta verið skemmdir og brot eftir snjóinn þar sem hann hefur hlaðist í skafla. Brotnar greinar má hreinsa í burtu og stundum getur þurft að taka greinar upp við stofn.
Það getur verið ákveðin kúnst að klippa stóra grein af tré. Stundum er rétt að stytta greinina fyrst eða taka af henni mesta þungann til að börkurinn rifni ekki niður með stofninum þegar greinin fellur af. Því næst þarf að taka greinina við stofn en skilja ekki eftir stubba eða búta sem rotna og geta sýkt tréð. Þó þarf að skilja eftir greinakragann (sjá myndir) sem síðan vex yfir sárið og lokar því.
Á myndinni sést greinakraginn milli stofns og greinar.
Gott er að hreinsa allar dauðar greinar eða sprota og eins má gjarnan þynna krónur trjáa aðallega með því að fjarlægja greinar sem nuddast við stofn eða aðrar greinar (svokallaðar krosslægjur).
Greinin söguð af við greinakragann.
Þegar runnar eru klipptir, ekki síst blómstrandi runnar, er oft betra að taka gamlar greinar niður við rót og þynna eða yngja runnann með þeim hætti. Yngri sprotar sem koma frá rót halda þá runnunum ungum og vel blómstrandi. Þetta á við um berjarunna, kvisti, runnarósir og margar aðrar tegundir. Ef klippt er utan af slíkum runnum kemur það niður á blómgun og berjauppskeru.
Hægt er að endurnýja berjarunna og blómstrandi runna með því að klippa elstu greinar við rót.
Aðrar tegundir sem klipptar eru í limgerði eða frá gönguleiðum má klippa með öðrum hætti. Þá styttum við árssprota. Best er að skilja eftir tvö til þrjú brum á vexti síðasta árs, sem laufgast þá fyrst í vor. Í sumum tilfellum getur þó þurft að klippa inn í eldri við til að mjókka og endurmóta limgerðin. Þá gerist það að sá hluti laufgast síðar og getur verið viðkvæmur fyrir fiðrildalirfum sem stundum leggjast þungt á nýklipptar plöntur, ekki síst víðitegundir.
Gæta þarf sérstaklega að trjágróðri meðfram göngustígum svo greinar teppi ekki gönguleiðir. Klippa þarf tímanlega fyrir laufgun en einnig í sumum tilfellum að klippa til viðbótar einu sinni eða tvisvar yfir sumarið. Miða skal við að hæð upp í trjákrónu yfir gangstétt eða göngustíg sé ekki undir 2,8 m og að hæð upp í trjákrónu yfir götu sé ekki undir 4,2 m.
Garðyrkjustjóri óskar eftir góðri samvinnu við íbúa Múlaþings og svarar því gjarnan spurningum sem kunna að vakna meðal annars varðandi umhirðu gróðurs. Símanúmer garðyrkjustjóra er 854-2428 og netfangið er jon.arnarson@mulathing.is.