Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (rekstrarleyfisskylda gististarfsemi) var samþykkt á Alþingi 30. apríl 2024.
Á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands kemur fram að með frumvarpinu verði „sú lagalega breyting að rekstrarleyfisskyld gististarfsemi skal vera í samþykktu atvinnuhúsnæði og því ekki lengur heimilt að gefa út leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði. Sem dæmi má nefna að ef einstaklingur leigir út hluta af heimili sínu í þéttbýli t.d. í gegnum Airbnb getur viðkomandi áfram gert það í allt að 90 daga á ári eða sem nemur 2 milljónum króna í leigutekjur. Eftir að því marki er náð getur viðkomandi ekki sótt um rekstrarleyfi gististaða líkt og eitthvað hefur borið á. Rekstrarleyfi gististaða verða aðeins gefin út ef um atvinnuhúsnæði er að ræða eða ef útleigueiningin er í dreifbýli t.d. bændagisting. Vakin er athygli á að heimagisting er alltaf skráningarskyld og sækja þarf um heimagistingarleyfi og endurnýja það árlega.“