Regnbogagatan á Seyðisfirði var máluð eftir veturinn í gær, fimmtudaginn 28. apríl. Litrík gatan, sem hefur skipað sér stóran sess í huga fólks sem eitt af aðal myndefnum á Seyðisfirði, fær yfirhalningu á hverju vori. Þá eru allir velkomnir að taka þátt og mála, hvort sem um heimafólk eða gesti er að ræða.
Í gær mættu um það bil 50 manns á öllum aldri og gerðu götuna, sem nú er kölluð Regnbogagata, fallega á ný. Margir bæjarbúar bíða óþreyjufullir eftir þessum degi á vorin, til að taka þátt í þessu sameiginlega og fallega verkefni bæjarbúa.
Upphaflega var gatan máluð sumarið 2016, þar sem hún var orðin þreytt í útliti enda hellurnar brotnar og komnar til ára sinna. Í dag þykja brotin heillandi, þegar bjartir litinir eru komnir á.