Árlega er haldin Forvarnarráðstefna VÍS sem fjallar um öryggismál og forvarnir fyrirtækja og stofnana frá öllum hliðum. Sveitarfélagið Múlaþing var tilnefnt og hlaut hvatningarverðlaun.
Á ráðstefnunni er sex fyrirtækjum eða stofnunum veitt verðlaun vegna árangurs í forvarnarmálum. Þrjú í flokki stærri fyrirtækja og þrjú í flokki minni fyrirtækja.
Sigrún Hólm Þórleifsdóttir verkefnastjóri mannauðs hjá sveitarfélaginu segir verðlaunin hafa mikið gildi.
,,Fyrir sveitarfélag sem samanstendur af fjölbreyttum stofnunum með gerólíkum störfum, þá er ótrúlega gott að fá hvatningarverðlaun í forvörnum. Það staðfestir að sú vinna sem hefur verið í gangi hjá Múlaþingi frá sameiningu er ekki óséð og vekur eftirtekt. Stjórnendur og starfsfólk hafa staðið sig frábærlega í að bæta vinnuumhverfi og benda á það sem betur má fara. Að skapa góðan og öruggan vinnustað er samstarfsverkefni allra á vinnustaðnum og hefur okkar fólki tekist vel til og tökum við því stolt á móti þessari viðurkenningu.”
Múlaþing leggur áherslu á örugga vinnustaði, heilbrigði starfsfólks og fagleg viðbrögð. Þessum markmiðum skal náð með vel skilgreindum viðbragðsferlum og fræðslu.
Frá sameiningu 2020 hefur Múlaþing sett sér stefnu í öryggismálum starfsfólks og meðal annars innleitt Atvikakerfi VÍS og gert forvarnar- og viðbragðsáætlanir. Stjórnendur hafa fengið reglubundna þjálfun og fræðslu því tengdu og starfsfólki hefur gefist tækifæri að sækja fræðslu bæði á vinnustað og með starfrænni fræðslu á netinu.
Aðspurð sagði Sigrún að margt hafi breyst með tilkomu Atvikakerfisins frá VÍS.
,,Yfirsýn stjórnenda sveitarfélagsins á slysum eða óhöppum í stofnunum jókst, en það er ekki það eina heldur hefur kerfið auðveldað starfsfólki að tilkynna slys og koma ábendingum um hættur í vinnuumhverfinu á framfæri. Þær ábendingar sem koma í gegnum kerfið eru yfir farnar af stjórnendum og eftir atvikum, öryggisnefnd og brugðist er við eftir bestu getu. Sem dæmi þá má nefna að í einhverjum tilvikum hefur þurft að breyta forgangsröðun framkvæmda vegna ábendinga starfsfólks á raunverulegri hættu í umhverfinu. Þá hefur eftirfylgni og viðbrögð við slysum í stofnunum stóraukist.”
Múlaþing tekur stolt við viðurkenningunni og þakkar VÍS traustið. Viðurkenningin veitir sveitarfélaginu kraft til þess að halda áfram góðri vegferð í forvarnar- og öryggismálum.