Icelandic Roots er félag sem var stofnað 2013 sem heldur meðal annars utan um gagnagrunn Vestur-Íslendinga. Allt starf félagsins er unnið í sjálfboðavinnu. Í dag eru um 788.000 manns í gagnagrunninum www.icelandicroots.com.
Í september ferðast sjálfboðaliðar Icelandic Roots frá Norður Ameríku um Ísland til að fagna 10 ára afmæli félagsins. Þeir heimsækja mikilvæga sögustaði, hitta félaga sem búsettir eru á Íslandi og setja upp minnisvarða um fólk sem flutti frá nokkrum höfnum á Norður- og Austurlandi.
Í kjölfar Öskjugossins 1875 ákváðu margir Austfirðingar að freista gæfunnar í Vesturheimi. Á árunum 1876-1914 fóru um 2700 manns víðsvegar af Austurlandi frá Seyðisfirði, þar af um 700 Seyðfirðingar.
Þann 3. september næstkomandi klukkan 16:30 verður afhjúpaður minnisvarði á Seyðisfirði um Vesturfarana. Minnisvarðinn verður reistur á Hafnargarðinum við Ferjuleiru. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, afhjúpar minnisvarðann.
Allir velkomnir.