Fara í efni

Mikið við að vera fyrir börn í sumar

06.07.2021 Fréttir

Í Múlaþingi er margt um að vera í sumar fyrir yngri íbúa sveitarfélagsins. Til að mynda ýmis námskeið ætluð börnum og ungmennum auk sérstakra viðburða og vinnusmiðja fyrir þennan hóp.

Á Seyðisfirði hafa í sumar verið starfræktir skólagarðar fyrir börn á aldrinum 10-12 ára undir stjórn Unnar Óskarsdóttur. Meðal þess sem nemendur skólagarðanna hafa fengist við er plöntun hnúðkáls, grænkáls, steinselju og fleiri jurta. Þá hafa krakkarnir einnig fræðst um, og jafnvel smakkað, mismunandi jurtir sem finna má í náttúru Íslands og sett niður kartöflur.

Ágústa Margrét Arnardóttir hefur stjórnað sumarnámskeiði fyrir börn á aldrinum 7-9 ára á Djúpavogi. Áhersla námskeiðsins var á sköpun, sjálfstæðan leik, hópefli, sjálfsbjargarviðleitni, náttúrutengingu, færni, fræðslu og fjör. Á Djúpavogi hafa krakkarnir verið mikið úti í náttúrunni, gengið og málað en á seinni hluta námskeiðsins var gerð kofabyggð með tilheyrandi verkefnum.

Sumarnámskeiði Nýungar á Egilsstöðum er nýlokið. Námskeiðið er fyrir krakka frá 10-12 ára en Árni Pálsson leiðir það ásamt Reyni Hólm og Þórdísi Kristvinsdóttur. Dagskráin í ár hljóðaði upp á þrjár vikur af ævintýrum og til að mynda var gengið inn að Bjargselsbotnum, hjólað í Dýragarðinn á Finnsstöðum, Slökkvistöðin heimsótt og matur eldaður yfir opnum eldi. Þá er mikil áhersla lögð á sjálfsstyrkingu og hópefli auk leikja og fjörs.

Fyrir börn á aldrinum 7-9 ára á Egilsstöðum er í boði sumarfrístund bæði fyrri part sumars og í ágúst. Þar er sömuleiðis stíf dagskrá alla daga. Á fyrra námskeiðinu stendur börnunum meðal annars íþróttaval til boða í samstarfi við Íþróttafélagið Hött. Þannig er á hverjum degi farið í fimleika, frjálsar og körfubolta auk þess sem leiðbeinendur á námskeiðinu bjóða upp á sérstakt fótboltanámskeið. Börnin hafa einnig hjólað mikið, skoðað skordýr, föndrað, lært ýmiskonar leiki og marað í sundi.

Myndir frá námskeiðum.

Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, LungA, stendur fyrir vinnusmiðju fyrir börn undir yfirskriftinni Lautarferð dagana 14.-17. júlí. Það eru listakonurnar Signý Jónsdóttir og Anna Margrét Ólafsdóttir Amó sem leiða smiðjuna en hún snýr að því að undirbúa lautarferð sem farið verður í í lok vikunnar þar sem gestum verður boðið að vera með. Lautarferðin verður skipulögð í heild sinni af börnunum með leikgleði og listsköpun að leiðarljósi. Skráning fer fram á lunga.is.

Þá mun Leikhópurinn Lotta koma í heimsókn í Múlaþing dagana 21.-24. júlí með Pínu litlu gulu hænuna, ævintýralegt skemmtiatriði fyrir alla fjölskylduna. Sýningartíma má finna hér.

 

Mikið við að vera fyrir börn í sumar
Getum við bætt efni þessarar síðu?