Langbylgjusendir Ríkisútvarpsins á Eiðum var fellt í dag. Mastrið sem var þriðja hæsta mannvirki á Íslandi, eða um 218 metrar, hefur þjónað hlutverki sínu nú í aldarfjórðung en síðustu útsendingu lauk á mánudaginn síðastliðinn klukkan 15:11. Í stað langbylgjusendis er komið öflugt FM kerfi á Austurlandið sem er töluvert ódýrara til viðhalds og öruggara.
Mastrið hefur verið útsýnis- og ljósmengun fyrir nærliggjandi sveitir frá því að það var reist á árunum 1996-1998 og eru því heimamenn ánægðir með aðgerðina sem mörgum þótti löngu tímabær.
Ekki þurfti mikinn aðbúnað við að fella mastrið en einungis þurfti að taka í sundur tvo víra áður en efsti hluti þess gaf sig, sem lagðist niður á næsta hluta sem brotnaði og féll þá allt mastrið lóðrétt til jarðar. Aðstæður voru góðar og verknaðurinn vel lukkaður og stendur nú yfir að fjarlægja brakið.
Myndskeiði; Kormákur Máni Hafsteinsson (KOX)
SS