Síðustu dagar myrkurs verða kvaddir með pompi og prakt um leið og endurkomu sólarinnar verður fagnað í níunda sinn á Seyðisfirði með hátíðinni List í ljósi.
Hátíðin verður haldin dagana 9. og 10. febrúar og geta áhugasamir barið hana augum á milli klukkan 18 og 22 báða dagana.
Á meðan hátíðinni stendur eru götuljós bæjarins slökkt og hann lýstur upp með fjölda listaverka en staðsetningu þeirra má finna á korti hátíðarinnar.
,,Það er alltaf einstök upplifun þegar öll götuljósin slokkna fyrir opnun hátíðarinnar og ljóslistaverkin í ljósaslóðinni eru einu ljósgjafarnir í myrkrinu. Það er töfrastund sem er alltaf jafn áhrifamikil“ segir Sesselja Jónasardóttir stofnandi og stjórnandi hátíðarinnar.
Á þessari metnaðarfullu listahátið, sem hlaut Eyrarrósina árið 2019, verður hægt að sjá verk eftir innlent sem og erlent listafólk. Verkin eru fjölbreytt og spanna allt frá innsetningum, framkomu, viðburðum og myndbandsverki svo fátt eitt sé nefnt.
Skemmtilegt er frá því að segja að þátttökulistaverkin hafa aldrei verið fleiri en þar geta gestir haft áhrif á ljóslistaverkin beint og jafnvel gengið inn í innsetningar sem eru allt umlykjandi.
Þá má segja að meðal hápunkta hátíðarinnar í ár séu verkin ,,Ísinn bráðnar á pólunum“ eftir Martin Ersted frá danska listahópnum Ball & Brand, nýtt verk eftir Heklu Dögg Jónsdóttir sem heitir ,,Gegnum“ og má finna á Regnbogagötunni, Abigail Portner mun taka yfir Skaftfell bæði að innan og utan með myndbandsverki sem ber heitið ,,Hringekja“. Listinn er þó ekki tæmandi og önnur verk ekkert síður spennandi.
,,Við erum stolt af því að vera með þónokkur verk sem að takast á við áskoranir og ádeilumál úr samtímanum, svo sem hlýnun jarðar, lokun fiskvinnslunnar og sýna samstöðu með Palestínumönnum“ bætir Sesselja við.
Hátíðin er að mestu leyti utandyra, opin öllum og aðgangur ókeypis.
Íbúar eru hvattir til þess að fjölmenna á þessa einstöku upplifun, njóta í myrkrinu og fagna ljósinu um leið.
Nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu hátíðarinnar sem og vefsíðunni List í ljósi.