Vakin er athygli á því að dagskrá er komin fyrir List í ljósi, sem fram fer á Seyðisfirði dagana 12. - 14. febrúar næst komandi.
Í ljósi hamfaranna sem áttu sér stað á Seyðisfirði í desember auk heimsfaraldurs mun Listi í ljósi 2021 taka á móti fyrstu sólargeislum nýs árs á aðeins öðruvísi máta en hefð gerir ráð fyrir.
Listamenn, menningarstofnanir og skólar á svæðinu munu bjóða gestum og gangandi upp á einlægt listrænt framlag sem hefur það að markmiði að umvefja og gleðja. Hátíðin verður þannig framkvæmd að þeir sem vilja njóta hennar geta gert það á sínum tíma og skoðað listaverk og sýningar á eigin forsendum.