Sveitarstjórn Múlaþings staðfesti á fundi sínum í janúar afslætti af gatnagerðargjöldum fyrir árið 2022. Ástæður fyrir afslætti geta til að mynda verið efling brothættrar byggðar, landfræðilegar aðstæður, þétting byggðar eða brýn húsnæðisþörf.
Lista yfir lausar lóðir í sveitarfélaginu, bæði íbúðarlóðir og fyrir atvinnuhúsnæði, má sjá hér. Listinn er uppfærður jafnóðum og breytingar verða og því gagnlegt fyrir áhugasama að fylgjast með hreyfingum sem á honum verða.
Þegar þetta er skrifað er staða lausra lóða í kjörnum Múlaþings eftirfarandi:
- Á Borgarfirði eystri eru lausar 11 lóðir undir einbýlishús og 1 fyrir parhús.
- Á Djúpavogi eru lausar 6 einbýlishúsalóðir og 1 fyrir parhús.
- Á Egilsstöðum eru lausar 23 lóðir undir einbýlishús og 5 fyrir parhús eða raðhús.
- Í Fellabæ eru 2 einbýlishúsalóðir lausar.
- Á Hallormsstað eru lausar 8 einbýlishúsalóðir.
- Á Seyðisfirði eru lausar 11 lóðir fyrir einbýlishús, 4 fyrir einbýli-, par- eða raðhús, 3 fyrir parhús og 1 fyrir fjölbýlishús.
Allnokkur skipulagsmál eru í ferli hjá sveitarfélaginu um þessar mundir og nýjar lóðir væntanlegar á næstu misserum.
Umsóknir um lóðir skulu berast í gegnum Mínar síður og er umsækjendum bent á að kynna sér samþykkt um úthlutun lóða ásamt gjaldskrá sveitarfélagsins áður en sótt er um lóðir.
Við úthlutun lóða leggst á lóðaúthlutunargjald auk gatnagerðargjalds sem miðast við stærð og hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar. Unnt er að fá greitt gatnagerðargjald endurgreitt sé lóðinni skilað inn. Hægt er að sækja um greiðsludreifingu gatnagerðargjalds og skal óska eftir viðeigandi valmöguleika í lóðarumsókn. Eftirfarandi leiðir eru í boði:
Leið 1:
- Eindagi 1. 25% gjalds er 30 dögum eftir gjalddaga.
- Eindagi 2. 25% 6 mánuðum eftir gjalddaga.
- Eindagi 3. 50% 12 mánuðum eftir gjalddaga.
Leið 2:
- Eindagi 1. 25% gjalds er 30 dögum eftir gjalddaga.
- Eindagi 2. 75% 6 mánuðum eftir gjalddaga.
Leið 3:
- Eindagi 1. 50% gjalds er 30 dögum eftir gjalddaga.
- Eindagi 2. 50% 12 mánuðum eftir gjalddaga.
Umsóknir um lóðir eru afgreiddar hjá umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings sem fundar alla miðvikudagsmorgna, nema í þeirri viku sem sveitarstjórnarfundur er haldinn.