Hanna Dóra Helgudóttir er að skrifa lokaritgerð í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og snýst rannsókn hennar um afstöðu íbúa Múlaþings til heimastjórnarkerfisins og hver upplifun þeirra er miðað við markmið og tilgang þess.
Hægt er að taka þátt í könnuninni, sem tekur aðeins 4-5 mínútur að svara, með því að fara inn á tengilinn hér fyrir neðan. Farið verður með öll gögn samkvæmt Lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Við gagnaöflun er ekki hægt að rekja svör til einstakra svarenda, nöfn munu hvergi koma fram í niðurstöðum könnunarinnar og tryggt er að ekki verði hægt að rekja neinar upplýsingar til svarenda.
Sveitarfélagið Múlaþing varð til árið 2020 í kjölfar sameiningar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Fjórar heimastjórnir eru í sveitarfélaginu sem miðast við umdæmi gömlu sveitarfélaganna.
Heimastjórnir eru fastanefndir sem starfa í umboði sveitarstjórnar og hafa það markmið að tryggja áhrif og aðkomu heimamanna á hverjum stað að ákvörðunum sem varða þeirra nærumhverfi.
Helstu verkefni heimastjórna snúa að deiliskipulags- og umhverfismálum, menningarmálum, landbúnaðarmálum og umsögnum um staðbundin málefni og leyfisveitingar.
Tveir fulltrúar hverrar heimastjórnar eru kosnir beinni persónubundinni kosningu en þriðji fulltrúinn er jafnframt sveitarstjórnarfulltrúi.