Um margra árabil var Jazzhátíð Egilsstaða mikilvægur punktur í jazz flóru Íslendinga, og Egilsstaðir voru áfangastaður jazz unnenda sem nutu þess að koma hingað og hlusta á jazztónlist á heimsmælikvarða. Ekki voru áhrifin síðri hjá öllu því frábæra jazztónlistarfólki sem hingað kom og flutti tónlist sína.
Í samstarfi við Edgar Rugajs, jazzgítarista og tónlistarkennara, blés Sláturhúsið lífi í þessar jazzglæður og hóf haustið 2022 jazztónleikaröðina Langt út / Far our. Lögð er áhersla á að sem flestar greinar jazztónlistarinnar fái að njóta sín og að tónleikarnir tengist af og til öðrum viðburðum í húsinu, myndlistin verður að baktjaldi fyrir tónleika og gjörningalist flutt í samtali við improv jazz.
Samstarf innanlands sem utan
Á fyrsta starfsárinu náðist meðal annars samstarfi við tónleikastaðinn Mengi og Kaffihúsið í Lystigarðinum á Akureyri og mun það samstarf halda áfram. Að auki var aðstandendum boðið að taka þátt í jazzhátíðinni Jazz Blast í Álaborg og var tónleikaröðin kynnt og Sláturhúsið sem mögulegur kostur fyrir jazztónlistarfólk, bæði sem tónleikastaður og residensía. Mikill áhugi var á þeirri aðstöðu sem boðið er upp á og hafa fjölmargir tónlistarmenn alls staðar af úr Evrópu þegar óskað eftir því að koma og spila. Áhugi íslenskra jazztónlistarmanna er ekki minni og er Sláturhúsið á góðri leið með að fylla dagskránna út árið.
Tónleikar og vinnustofur
Það verða sem fyrr, mánaðarlegir tónleikir og að auki verður boðið upp á tvær jazztengdar vinnustofur með gestum Sláturhússins þar sem að tónlistarfólk á öllum aldri getur komið og fengið að "djamma" með eða læra ný brögð. Fyrri vinnustofan verður í síðari hluta maí mánaðar og sú seinni í haust
Edgars Rugajs, tónlistarstjóri verkefnisins, hefur meistaragráðu í jazzgítarleik frá Eistnesku Tónlistarakademíunni auk þess sem að hann bæði lærði og starfaði í Danmörku um nokkurra ára skeið. Hann hefur í gegnum árin myndað tengsl við nokkra af virtustu jazztónlistarmönnum samtímans og hefur það þegar skilað sér með tónleikum alþjóðlegra upprennandi jazzstjarna.
Jazzinn er skemmtilegur og fræðandi
,,Það er okkar mat að svona tónleikaröð hafi ekki einungis skemmtanagildi heldur sé hún bæði fræðandi og hvetjandi fyrir ungt tónlistarfólk á svæðinu til að leita bæði inn á við og út á við, kynnast straumum og stefnum og leyfa sér að prófa eitthvað nýtt. Því hefur verið haldið fram að jazztónlist og það að bæði iðka og hlusta kenni okkur nokkur grundvallar atrið : jazz kennir okkur spuna - á hverjum degi, hvort sem okkur líkar betur eða verr, þurfum við að spinna; túlka aðstæður og koma með eitthvað nýtt mótsvar sem kemur okkur lengra áleiðis. Spuni er stór partur af jazztónlistinni og svo er einnig um uppfinningar, í hverju sóló þarf jazztónlistarmaður að finna nýja útgáfu af áður þekktum stefum. Jazzinn kennir okkur einnig jafnræði, öll hljóðfæri og flytjendur vega jafnt á sviðinu í jazztónlistinni Og síðast en ekki síst; jazzinn kennir okkur að hlusta!“ Segir Ragnhildur Ásvaldsdóttir forstöðumaður Sláturhússins.
Dagskráin 2024 ekki af verri endanum
Á gestalistanum árið 2024 eru bæði innlent og erlent listafólk og ljóst að dagskráin verður bæði metnaðarfull og framúrstefnuleg. Samstarf við Danmörku í gegnum Jazz Blast heldur áfram og einnig munuð verður samstarf við þýska tónleika- og ljósmyndapródúsenta og er hugmyndin að setja upp ljósmyndasýningu í tengslum við tónleikaseríuna.
Fyrstu tónleikarnir voru í janúar en þá voru það Björt Sigfinnsdóttir og Jón Hilmar sem að komu fram.
Þann 28.febrúar kom jazzgítaristinn Olli Soikkeli og spilaði.
Í kvöld heimsækir Sunna Gunnlaugsdóttir djasspíanisti og verður með sólotónleika og er mikil tilhlökkun við að heyra hana spila á flygilinn í Sláturhúsinu.
Í maí verður svo djasskvartett með innlendum og erlendum spilurum.
Aðspurð um framhaldið segir Ragnhildur: ,,Við erum að undirbúa haustið, að öllum líkindum fáum við heimsókn danskra djassleikara sem að munu spila af fingrum fram í samtali við Einar Már Guðmundsson en þar mun djassinn og ljóðlistin mætast.
Við vonum að með þessari tónleikaröð getum við haldið úti hefðinni fyrir djassi hér fyrir austan, okkur er það mikilvægt að það takist að mynda einskonar samfellu í tónlistarframboði, bæði að okkar gestir geti gengið að því vísu að hér séu mánaðarlegir tónleikar og að við bjóðum upp á djass á fremsta mælikvarða!“
Tónleikaröðin er styrkt af Uppbyggingasjóð Austurlands og Menningar og viðskiptaráðuneytinu í gegnum Tónlistarsjóð.