Varptími fugla nær senn hámarki og eru hunda- og kattaeigendur hvattir til að taka tillit til þess. Hundar og kettir geta haft neikvæð áhrif á fuglavarp í nágrenni við mannabústaði og því er ábyrgð eigenda þeirra töluverð.
Kettir geta verið öflugar veiðiklær en eigendum þeirra ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, til dæmis með því að hengja bjöllur á hálsólar þeirra eða setja á þá kraga. Æskilegt er að halda köttum innandyra að næturlagi til að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra yfir varptímann.
Hundar geta haft neikvæð áhrif á varpsvæði fugla og eru hundaeigendur beðnir um að sleppa hundum sínum ekki lausum á slíkum svæðum. Jafnframt er bent á að lausaganga hunda er óheimil innan þéttbýlis nema á þar til gerðum hundasvæðum. Hundaeigendur eru einnig minntir á að hirða alltaf upp eftir hunda sína en umgengni lýsir innri manni.
Að gefnu tilefni er rétt að benda á að hunda- og kattaeigendum ber að sjá svo um að dýr þeirra valdi ekki hávaða, ónæði, óþrifnaði eða óhollustu. Valdi gæludýr nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni ber eiganda að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.
Það er ekki við hunda eða ketti að sakast að fylgja eðlishvötum sínum heldur er það eigenda að sýna samfélagslega ábyrgð með því að draga úr neikvæðum áhrifum gæludýra sinna.
Að lokum er vert að benda á að kettir innan þéttbýlis og allir hundar eru skráningarskyldir hjá sveitarfélaginu en hægt er að skrá og afskrá gæludýr á íbúagátt Múlaþings.