Í byrjun september hófust æfingar á nýju íslensku barnaleikriti Hollvættur á heiði eftir Þór Túliníus sem frumsýnt verður í Sláturhúsinu þann 4. nóvember næstkomandi.
Valinkunnur hópur listafólks stendur að sýningunni en Ágústa Skúladóttir leikstýrir, Þórunn María Jónsdóttir er leikmynda og búningahönnuður, Aldís Davíðsdóttir gerir brúður, Ólafur Ágúst Stefánsson hannar lýsingu, tónlist semur Eyvindur Karlsson og tónlistarstjórar eru Øystein Gjerde og Hlín Pétursdóttir Behrens.
Í aðalhlutverkum eru þau Jökull Smári Jakobsson, Vigdís Halla Birgisdóttir og Kristrún Kolbrúnardóttir ásamt Tess Rivarola sem stýrir brúðunni Þokkabót. Æfingaferlið hófst fyrir sunnan í byrjun september hjá Leikfélagi Kópavogs. Um miðjan september hófust svo æfingar hér fyrir austan og í leikhópinn bættist við heimafólk. Mörg þeirra hafa þegar stigið sín fyrstu skref á leiksviði meðal annars með leikfélagi Fljótsdalshéraðs og leikfélagi ME en flestöll eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnuleikhúsi. Þetta eru Øystein Gjerde, Vigdís Diljá Óskarsdóttir, Stefán Bogi Sveinsson, Hanna Sólveig Björnsdóttir, Árni Friðriksson, Gyða Árnadóttir, Sólgerður Vala Kristófersdóttir og Auðbjörg Elfa Stefánsdóttir. Óttar Brjánn Eyþórsson smíðar leikmynd, Sigrún Einarsdóttir saumar búninga, Anna Gunnarsdóttir þæfði ull í steina, Katarzyna Strojnowska aðstoðar við leikmunagerð og Fjóla Egedía Sverrisdóttir og Heiðdís Halla Bjarnadóttir aðstoða við búningasaum. Sýningarstjóri er Erla Guðný Pálsdóttir og framleiðandi er Ragnhildur Ásvaldsdóttir fyrir hönd Sláturhússins.
Uppsetningin á Hollvættum á heiði er stærsta sviðslistaverkefni sem að Sláturhúsið hefur framleitt og í fyrsta sinn sem fengist hefur styrkur úr Sviðslistasjóði fyrir atvinnuleikhús. Sláturhúsið fékk fjórða hæsta styrkinn í síðustu úthlutun Sviðslistasjóðs þar sem að einungis 13 verkefni voru styrkt af 111 sem sóttu um. Það er því mikil eftirvænting í loftinu og ljóst að mikil vinna er framundan á haustmánuðum bæði við æfingar og tæknivinnu.