Grímuverðlaun ársins 2024 voru afhent í gærkvöldi við hátíðlega athöfn í Þjóðleikhúsinu. Þar hlaut fjölskyldusýningin Hollvættir á heiði verðlaun sem besta barnasýning ársins.
Sýningin var sett á svið af leikhópnum Svipir í samstarfi við Sláturhúsið Menningarmiðstöð og var fyrsta atvinnuleikhússýning Sláturhússins í nýju sviðslistarými.
Verkefnið er einstakt samstarfsverkefni þar sem saman komu atvinnuleikarar og leikhúsfólk, áhugaleikarar af Austurlandi og tónlistarfólk.
Ragnhildur Ásvaldsdóttir framleiðandi og forstöðumaður Sláturhússins var tekin tali eftir viðtökurnar á verðlaununum og hafði þetta að segja um þýðingu verðlaunanna: ,,Þessi verðlaun eru náttúrulega fyrst og fremst viðurkenning á starfi okkar sem atvinnuleikhús, en þar erum við jafnframt að stíga okkar fyrstu skref. Verðlaunin eru ekki síður hvatning til að halda áfram á þessari braut og byggja upp vettvang og umhverfi fyrir atvinnuleikhús hér á Austurlandi. Það þýðir þó ekki að við munum framleiða sjálf allt sem að fer á svið í Sláturhúsinu, til þess höfum við hvorki fjárhagslegt bolmagn né nægan starfsmannafjölda. Enda ekki markmið okkar, við viljum hlúa að og taka vel á móti sjálfstæðum atvinnuleikhópum sem og grasrótinni og þannig haft fjölbreytt framboð sviðslistasýninga í Sláturhúsinu."
Leikverkið er nýtt barnaleikrit eftir Þór Tulinius. Aðrir sem stóðu að sýningunni voru:
- Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir
- Framleiðandi: Ragnhildur Ásvaldsdóttir fyrir hönd Sláturhússins
- Sýningarstjóri: Erla Guðný Pálsdóttir
- Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir
- Tónskáld: Eyvindur Karlsson
- Ljósahönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson
- Brúðugerð: Aldís Davíðsdóttir
- Tónlistarstjóri: Øystein Magnús Gjerde
- Söngþjálfun: Hlín Pétursdottir Behrens
- Leikskáld: Þór Tulinius
- Söngtextar: Sævar Sigurgeirsson
- Aðalhlutverk: Jökull Smári Jakobsson, Vigdís Halla Birgisdóttir, Kristrún Kolbrúnardóttir og Tess Rivarola sem stýrði brúðunni Þokkabót
- Aðrir leikarar: Tess Rivarola , Øystein Magnús Gjerde, Vigdís Diljá Óskarsdóttir, Stefán Bogi Sveinsson, Hlín Pétursdóttir Behrens, Hanna Sólveig Björnsdóttir, Árni Friðriksson, Gyða Árnadóttir, Sólgerður Vala Kristófersdóttir og Auðbjörg Elfa Stefánsdóttir
Æfingaferlið hófst fyrir sunnan í byrjun september 2023 í húsnæði Leikfélags Kópavogs. Um miðjan september hófust svo æfingar hér fyrir austan og í leikhópinn bættist við heimafólk. Mörg þeirra hafa þegar stigið sín fyrstu skref á leiksviði meðal annars með leikfélagi Fljótsdalshéraðs og leikfélagi ME en flestöll voru að stíga sín fyrstu skref í atvinnuleikhúsi. Þetta voru Øystein Gjerde, Vigdís Diljá Óskarsdóttir, Stefán Bogi Sveinsson, Hanna Sólveig Björnsdóttir, Árni Friðriksson, Gyða Árnadóttir, Sólgerður Vala Kristófersdóttir og Auðbjörg Elfa Stefánsdóttir.
Óttar Brjánn Eyþórsson smíðaði leikmynd, Sigrún Einarsdóttir saumaði búninga, Anna Gunnarsdóttir þæfði ull í steina, Katarzyna Strojnowska aðstoðaði við leikmunagerð og Fjóla Egedía Sverrisdóttir og Heiðdís Halla Bjarnadóttir aðstoðuðu við búningasaum.
Á Grímuna mætti hluti hópsins sem stóð að sýningunn og sagði Ragnhildur ,,Upplifunin að taka á móti verðlauninum var einstaklega góð, og gaman að við værum þetta mörg þarna að taka á móti. En þakklæti og auðmýkt er mér eiginlega helst í huga. Að geta fagnað leikárinu með öðru sviðslistafólki er líka dásamlegt. Og svo síðast en ekki síst þá er þakklæti til áhorfenda á sýningum ofarlega í huga, þau skapa leikhúsið með okkur."
Þá var hún innt eftir því hvað væri framundan í Sláturhúsinu og það stóð ekki á svörum ,,Við erum að þreifa fyrir okkur varðandi nýtt verkefni en það tekir tíma að þróa og framleiða. En í Sláturhúsinu eru mörg verkefni framundn og þá ber helst að nefna opnun sýningar Agnieszku Sosnowsku og Ingunnar Snædal, RASK, þann 6.júní kl 18:00. Sú sýning er jafnframt hluti af Listahátíð í Reykjavík. Hreindýralandið, sýning á ljósmyndum eftir Skarphéðinn Þórisson opnar svo í Frystiklefanum þann 20.júní og í haust ætlum við að bjóða upp á leiksýninguna Kjarval í samstarfi við Borgarleikhúsið, en sú sýning er ætluð börnum. Svo er það grasrótin, leiklistarnámskeið og leiklestrar." Það er því greinilega til mikils að fylgjast með því sem framundan er.
Uppsetningin á Hollvættum á heiði er stærsta sviðslistaverkefni sem að Sláturhúsið hefur framleitt og eru Grímuverðlaunin því sannkölluð fjöður í hattinn og verðskulduð viðurkenning á metnaðarfullu starfi menningarhússins og allra þeirra sem komu að sýningunni með einum eða öðrum hætti.
Stór dagur fyrir menningarlíf á Austurlandi og vill sveitarfélagið óska aðstandendum sýningarinnar sem og íbúum til hamingju!