Fyrr í vetur bauð Múlaþing út framkvæmdir við ytra birði Herðubreiðar á Seyðisfirði þar sem ætlunin var að gera við múrskemmdir, laga leka meðfram gluggum og jafnframt setja múrkerfi á eldri hluta hússins. Niðurstaða útboðsins var sú að ekkert tilboð barst.
Það er veruleiki sem framkvæmdasvið sveitarfélagsins hefur verið að eiga við síðustu misseri, bæði í byggingaverkefnum og jarðvinnu, að mjög erfitt hefur verið að fá verktaka í þau verkefni sem sveitarfélagið hyggst vinna.
Stefnt er að því að bjóða framkvæmdir við Herðubreið út að nýju á næsta ári, þar sem verkið þarf að vinnast að sumri til.