Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefur falið skipulagsfulltrúa að grenndarkynna byggingaráform og útmörk viðskipta- og þjónustulóðar við Austurveg 1 (L154874) á Seyðisfirði í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ráðið samþykkti að grenndarkynnt yrði fyrir lóðarhöfum við Suðurgötu 2 og Austurveg 3 auk þess að áformin yrðu kynnt almenningi með auglýsingu og kynningu á heimasíðu sveitarfélagsins með vísan til staðsetningar á áberandi stað í miðju bæjarins á svæði sem nýtur hverfisverndar.
Um er að ræða endurbyggingu á Turninum sem fórst í aurskriðu við Hafnargötu á síðasta ári. Við endurbyggingu verður farið eftir upprunalegum teikningum frá Norskri sögunarmyllu sem framleiddi húsið upphaflega.
Fyrirhuguð staðsetning er í samræmi við tillögur ráðgjafanefndar um færslu húsa á Seyðisfirði sem skipuð var í kjölfar skiðufalla á Seyðisfirði í desember 2020. Nálgast má skýrsluna hér að neðan en þar segir að Turninn sé "sennilega fyrsta hús sinnar tegundar á Íslandi. Eyjólfur Jónsson bankastjóri flutti það inn frá Noregi árið 1908. Má segja að Turninn hafi markað upphaf sjoppumenningar á Íslandi. Þar var verslað með sælgæti, öl, tóbak og ýmisskonar innflutta pakka- og dósavöru. Turninn er plankahús og ganga plankarnir fram í kili á hornum. Við breytingar á húsinu hafa plankaendarnir verið sagaðir af og annars staðar fúnað í endana. Turninn er eitt sérkennilegasta húsið í húsasafni Seyðfirðinga og má ekki fyrir nokkurn mun glatast.“ (Húsasaga Seyðisfj. útg. 2020).
Athugasemdum og ábendingum við grenndarkynningu þessa skal skila í síðasta lagi þann 4. janúar 20212 í tölvupósti á netfangið skipulagsfulltrui@mulathing.is Jafnframt er unnt að óska eftir frekari upplýsingum á sama netfangi.
Þeir sem ekki gera athugasemdir fyrir tilgreindan tíma teljast samþykkir tillögunni.
Virðingarfyllst,
Skipulagsfulltrúi Múlaþings
Kynningargögn, lögð fram af málsaðila, unnin af Verkráð ehf. og dags. 27. október 2021.