Þessi misserin vinna verktakar hörðum höndum við gerð göngustígar frá Einhleypingi í Fellabæ að baðstanum VÖK Baths í Urriðavatni. Leiðin er um 2 km löng í heildina en framkvæmdin er unnin í nokkrum áföngum.
Fyrsti áfangi var unninn fyrir nokkrum árum þegar HEF veitur lögðu malarstíg frá veginum að Barra og að Hróarstunguvegi í tengslum við lagnaframkvæmdir í Vök Baths.
Nú er í gangi vinna við annan áfanga verkefnisins en í honum felst lagning um 1,6 km langs malarstígar frá Fellabæ að veginum að Barra.
Stígurinn verður svo lýstur upp og malbikaður en sá hluti uppbyggingarinnar tilheyrir þriðja áfanga og hefur ekki verið tímasettur.
Verkefnið er unnið af Múlaþingi í samstarfi við Vegagerðina sem greiðir helming kostnaðarins. Efla hannaði stíginn og Jónsmenn eru verktakar.
Við fögnum því að í sumar verður hægt að ganga og hjóla eftir göngustíg frá þéttbýlinu Egilsstaðir/Fellabær að baðstaðnum Vök.